Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 19:11:00 (1569)

2000-11-09 19:11:00# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÖ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[19:11]

Guðrún Ögmundsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Við þingmenn Samfylkingarinnar í félmn. komum að máli við hv. formann nefndarinnar, Arnbjörgu Sveinsdóttur, og buðum það að mjög eðlilegt væri að senda frv. til sveitarfélaganna strax í fyrramálið, því það er alveg lykilatriði fyrir nefndina að fá þær umsagnir og við vitum vel að sveitarfélögin munu bregðast mjög skjótt við. Þau vita af málinu þannig að við þurfum ekki að láta það tefja málið. Í þessu er bandormur sem þarf líka að klára, ásamt málum sem fjmrh. mun mæla fyrir. Á mánudaginn ætti því að vera hægt að klára öll þessi mál og þar með að ákveða kvöldfund ef við höldum að það taki svo langan tíma, þannig að okkur sé gefinn sá fyrirvari.

En eins og ég sagði líka í upphafi er auðvitað alltaf dálítið erfitt þegar vinna þarf með of miklum hraða, en þetta er náttúrlega hlutur sem sveitarfélögin vita af og hafa fylgst með. Ég efast því ekki um að þau bregði skjótt við og þess vegna finnst mér mjög eðlilegt að þegar þessu er lokið verði umræðu frestað, herra forseti.