Fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:37:54 (1607)

2000-11-13 15:37:54# 126. lþ. 23.94 fundur 104#B fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), Flm. PBj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa á undanförnum árum jafnt og þétt tapað frá sér skattþegnum og fyrirtækjum í rekstri. Öll byggðust þau í upphafi vegna nálægðar við fiskimiðin. Nú hafa þau misst réttinn til sjósóknar, atvinna minnkar og fólkið flyst burt. Skuldastaðan er tvö- og þreföld á við landsmeðaltal. Þau skulda um 5,5 milljarða eða nær 650 þús. kr. á hvern íbúa, þar af um 2,5 milljarða vegna félagslegra íbúða sem mjög margar standa auðar. Fólksfækkun á síðustu 10 árum er yfir 15%.

Samkvæmt nýrri skýrslu fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga mundu þessi sveitarfélög ekki ná að greiða upp skuldir sínar á 20 árum þó þau nýttu til þess alla framlegð sína og fengju peningalegar eignir greiddar að fullu á bókfærðu verði. Allar framkvæmdir, sem eru þó í lágmarki, ásamt afborgunum lána eru fjármagnaðar með lánsfé. Í skýrslunni segir einnig að veigamikil orsök liggi í brottflutningi fólks og fjárhagsstaðan væri um einum milljarði betri með óbreyttri íbúatölu, hvað þá ef fjölgað hefði. Í þessari stöðu hafa vestfirskir sveitarstjórnarmenn leitað allra leiða í örvæntingu sinni til þess að skrimta. Vænlegast hefði verið fyrir vestfirskar byggðir að tryggja sér kvóta, samanber Básafellsmálið og fleiri skyld en fjárhagsstaðan leyfði það ekki.

Hugmyndin um að selja Orkubú Vestfjarða er fráleit á sama tíma og önnur sveitarfélög treysta aðstöðu sína til orkuöflunar og orkuréttinda. Flestir Vestfirðingar eru þessarar skoðunar.

Nú hefur viðræðunefnd ríkisins sent sveitarfélögunum bréf þar sem m.a. kemur eftirfarandi fram: Heildarverðmæti Orkubús Vestfjarða sé 4,6 milljarðar. Fyrir liggi skuldbindandi aðgerðaáætlun til lausnar á vanda hvers sveitarfélags fyrir sig. Gjaldskrá Orkubúsins verði samræmd gjaldskrá Rariks sem þýðir að hún mun hækka. Orkubú Vestfjarða starfi sem sjálfstæð eining, en hvað þýðir það? Engum starfsmanni verður sagt upp störfum vegna þessara breytinga? Að sjálfsögðu getur það þó orðið fljótlega vegna annarra ástæðna eins og jafnan hefur gerst og dæmin sanna. Orðrétt stendur síðan, með leyfi hæstv. forseta:

,,Söluverðmætinu verði varið til þess að greiða niður skuldir sveitarfélaga á Vestfjörðum og til lausnar bráðavanda sveitarfélaganna í félagslega íbúðakerfinu.``

Ég hlýt því að spyrja hæstv. félmrh.: Boðar þetta nýja stefnu gagnvart sveitarfélögunum í heild? Má búast við því að leitað verði eftir eignum á hverjum stað, búinn til verðmiði og síðan selt gegn skilyrðum? Verða kannski hafnarmannvirki, vatnsveitur, skólar, e.t.v. kirkjur komnar á listann áður en langt um líður?

Ég óska hér með eftir því að hæstv. félmrh. geri fulla grein fyrir því hvers má vænta á næstunni. Þetta er ekki einkamál ráðherra og sveitarstjórna. Ég tel algerlega óásættanlegt að Orkubú Vestfjarða verði notað sem skiptimynt til þess að gera upp skuldir vegna félagslega íbúðakerfisins. Það kerfi þarf að taka fyrir á landsvísu og snertir miklu fleiri byggðarlög en þau vestfirsku.

Í skoðanakönnun á vegum Bæjarins besta sást að um 90% Vestfirðinga eru andvíg þessari sölu, enda vita menn hvað það kostaði að missa forræði sitt yfir sjósókninni. Það þýddi atvinnuleysi og fólksflótta. Að missa forræði til orkuöflunar og dreifingar hennar heima fyrir mun hraða enn eyðingu þessara byggðarlaga. Getur það verið þetta, herra forseti, sem við þörfnumst mest um þessar mundir? Svarið er nei og aftur nei.

Orkubú Vestfjarða hefur gegnt hlutverki sínu með prýði og er traustur atvinnurekandi. Þar starfa menn í stjórnunar- og sérfræðistörfum sem hafa allgóð laun. Með sölunni má bóka að stjórnin flyst úr héraði og störfin með, hverju sem lofað er í þeim efnum. Ekki mun það hækka útsvarstekjur sveitarfélaganna. Orkubúið er með lægri taxta í húshitun en Rarik. Því munu textar hækka. Af hverju eru þá sveitarfélögin að velta fyrir sér sölu á Orkubúi Vestfjarða? Er þrýstingur af hálfu ríkisvaldsins á sveitarstjórnarmenn orðinn svo mikill að þeir grípi til örþrifaráða á borð við þessi sem duga svo ekki einu sinni til? Hvað kemur í staðinn? Orkuverð mun hækka. Störfum mun fækka í fjórðungnum og þar með fólkinu og Vestfirðingar mega síst við því. Hvað verður um þau áform sem uppi hafa verið um virkjanir á Vestfjörðum á vegum Orkubús Vestfjarða? Hvað með Glámuvirkjun? Hvað með virkjun vatnakerfis Ófeigsfjarðarheiðar og Hvalár sem gæti orðið um 170--200 megavött eða stærri en Blönduvirkjun? Á það að verða hlutverk Rariks án þess að Vestfirðingar hafi neitt um þær framkvæmdir að segja?

Herra forseti. Telur ríkisstjórnin sig vera að bjarga vestfirskum sveitarstjórnum með tillögum um skuldajöfnun og sölu Orkubús Vestfjarða? Þarf ekki frekar að finna lausn á félagslega íbúðalánakerfinu á landsvísu og aðstoða sveitarfélögin þannig? Verkefnið er frekar að stöðva einstefnu fólksflutninga sem er að sliga jafnt höfuðborgarsvæðið sem landsbyggðina. Takist það er það besta ráð til þess að leysa fjárhagsvanda sveitarfélaga sem fyrst auk þess að vera gott innlegg í vanda félagslega kerfisins. Aðstoð við sveitarfélög eða landshluta sem felast í því að svipta þau bjargráðum sínum mun verða bjarnargreiði.