Fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:48:48 (1609)

2000-11-13 15:48:48# 126. lþ. 23.94 fundur 104#B fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. málshefjanda að skuldastaða sveitarfélaga á Vestfjörðum er verri en víðast hvar á landinu. Ástæðurnar eru þríþættar.

Í fyrsta lagi gengu þessi sveitarfélög í ábyrgðir fyrir atvinnufyrirtæki á sínum tíma sem síðan urðu gjaldþrota og ábyrgðirnar féllu á sveitarfélögin.

Í öðru lagi var á uppgangstímunum mikil þörf á íbúðarhúsnæði á þessu svæði. Fólk vildi flytjast þangað en engar íbúðir voru til og sveitarfélögin réðust í það verkefni að byggja upp félagslegt íbúðarhúsnæði sem síðan reyndist þeim hurðarás um öxl.

Í þriðja lagi hafa fyrirtæki dregið saman, fólki fækkað og því tekjubrestur hjá sveitarfélögunum þannig að vandi þessara sveitarfélaga er miklu verri en víðast hvar á landinu. Það er einfaldlega staðreynd sem menn verða að horfast í augu við.

Það er líka rétt hjá hæstv. félmrh. að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum áttu upptökin að því að menn ræddu við ríkisvaldið um hvort möguleiki væri á því að finna einhverja lausn á þessum erfiðu vandræðum með því að selja hlut úr Orkubúi Vestfjarða. Þar er um að ræða mál sem menn verða að umgangast með fullri varúð og líta á bæði sjónarmiðin því þarna er um að ræða eignir sem eru ekki að skila viðkomandi sveitarfélögum neinum arði.

Þarna er um að ræða eignir sem því eru aðeins í rekstri nú og geta boðið upp á það raforkuverð sem hægt er að bjóða upp á vegna þess að ríkissjóður yfirtók á sínum tíma, að ég held, u.þ.b. tveggja milljarða króna skuld af Orkubúinu. Ef það hefði ekki gerst þá væri orkuverð á Vestfjörðum margfalt hærra en það er nú.

Þá verða menn líka að hafa það í huga að það er spurning hversu verðmætt þetta fyrirtæki verður í frjálsu samkeppnisumhverfi, hversu lengi hægt er að halda því orkuverði sem nú er án þess að til komi sérstök viðbótaraðstoð frá ríkinu.

Þarna er um að ræða vandamál sem sveitarfélögin á Vestfjörðum verða að leysa úr sjálf. Og eins og hæstv. ráðherra sagði hér áðan þá skil ég málið svo að það sé í þeirra valdi hvort þau selja sinn hlut eða ekki. En ég sé ekki fram (Forseti hringir.) á það, virðulegi forseti, svo ég ljúki nú máli mínu, að ríkinu sé neinn sérstakur akkur í að kaupa þetta fyrirtæki.