Fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 15:58:23 (1613)

2000-11-13 15:58:23# 126. lþ. 23.94 fundur 104#B fjárhagsvandi sveitarfélaga á Vestfjörðum# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við höfum verið með í þinginu í síðustu viku og svo aftur í dag umræðu um tekjustofna sveitarfélaga. Það er alveg ljóst að grundvöllurinn fyrir rekstri sveitarfélaga er mjög veikur nú um stundir og það útspil ríkisstjórnarinnar sem er í gangi núna er aðeins hluti af þeirri lausn eða þeirri neyð sem við sveitarfélögunum blasir. Það liggur í augum uppi að það verður að leysa þau vandamál sem eru komin upp hjá sveitarfélögunum í sambandi við félagslega íbúðakerfið og það gildir ekki bara um Vestfirði þó ástandið sé kannski verst þar. Það gildir um landið í heild. Þetta var hluti af húsnæðisstefnu ríkisins og sveitarfélög voru hvött til að fara fram með þeim hætti sem gert var. Nú búa menn svo illa á Vestfjörðum að þar hefur orðið mikil fólksfækkun og því er nauðsynlegt, til þess að þessi sveitarfélög eigi möguleika á því að verða sjálfbær og veita þá þjónustu sem nútímafólk krefst, að koma rekstri þessara sveitarfélaga á eðlilegan grunn með heildstæðum ráðstöfunum.

Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort þingið megi vænta þess að frá ráðuneytinu komi heildstæð stefna um lausn á vanda sveitarfélaganna, ekki bara í bútum eins og verið er að gera núna með styrkingu á jöfnunarsjóði, heldur lausn á vanda félagslega íbúðakerfisins, lausn á grunnskólavandanum og fjárþörf hans og sérstaklega tekjustofna sem hafa verið til umræðu en varðandi þá er ekki farið nándar nærri jafnlangt og sveitarstjórnarmenn geta sætt sig við. Þar var talað um 5--6 milljarða að lágmarki. En útspil ríkisstjórnarinnar er ekki nema 3,2 milljarðar og ekki nema 1,2 milljarðar nettó.