Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 18:11:16 (1647)

2000-11-13 18:11:16# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[18:11]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stend fyllilega við þessi orð mín vegna þess að þarna er verið að ýta skattahækkun yfir á sveitarfélögin, láta íbúa sveitarfélaganna á landsbyggðinni fyrst og fremst, sem hafa verið mjög illa stödd þar sem atvinnuástand hefur verið bágborið, sveitarfélög sem hafa verið að missa frá sér fólk, hafa mun minni möguleika til þess að afla sér tekna en áður, að þessar tillögur bæta alls ekki þar úr. Þvert á móti er verið að leggja til að íbúar í þeim sveitarfélögum, þar sem sveitarstjórnarmenn hafa lýst því yfir að þeir muni þurfa að nýta heimildina í topp og það nægi ekki til að þeir geti mætt þeim kröfum sem íbúar hvers sveitarfélags gera til stjórnenda sveitarfélaga að staðið sé við lög sem Alþingi hefur samþykkt þar sem við höfum ýtt yfir á sveitarfélögin verkefnum sem þau eru ófær um að sinna vegna fjárskorts.

Tillögur ríkisstjórnarinnar, ekki nefndarinnar því nefndin fylgdi bara ríkisstjórninni, þær bæta ekki þar úr. Þess vegna er þetta ekki í samræmi við þá byggðastefnu sem hér hefur verið og þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið í þeim efnum.