Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 13. nóvember 2000, kl. 18:50:23 (1652)

2000-11-13 18:50:23# 126. lþ. 23.5 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 126. lþ.

[18:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mörg orð um þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það liggur ljóst fyrir að hér er ágreiningur um mál sem hefur verið margræddur innan þings og utan.

Frv. sem er til meðferðar snýst einfaldlega um það að lækka tekjuskatt einstaklinga um 0,33%. Væntanlega er enginn hér inni á móti því. Væntanlega mun enginn hér inni leggjast gegn frv. þó að flutt hafi verið breytingartillaga um að ganga helmingi lengra.

Það er reyndar athyglisvert að hlýða á ræður manna. Einn þingmaður lagði málið þannig fyrir að efnahagsástandið kallaði á skattahækkun og að ríkisstjórnin væri að ota skattahækkuninni yfir á sveitarfélögin. Samt er flutt hérna tillaga um að lækka skatta. Hvar er samræmið í þessum málflutningi? (Gripið fram í.) Hvar er samræmið í þeim málflutningi sem segir að annars vegar sé rétt að hækka skatta en flytja svo tillögu um að lækka þá? Það er nú ekki mikið gerandi með svona leikfimi, herra forseti.

Þegar tekjustofnanefndin kemst að sinni niðurstöðu um að rétt sé að auka svigrúm á tekjur sveitarfélaganna þá er spurningin: Á ríkissjóður að borga það að öllu leyti? Mitt svar við því er nei. Ég tel ekki að það sé eðlileg eða sanngjörn krafa að ríkissjóður beri allt það tekjutap sem því mundi fylgja og leggi sveitarfélögunum til þennan mismun.

En ríkissjóður hefur ákveðið að leggja til mjög verulegt fjármagn, ríflega 3 milljarða á næsta ári til þess að greiða fyrir fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Sumt af því er tímabundið eins og framlögin sem koma munu í ár og á næsta ári í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga með svipuðum hætti og gert var í fyrra, 700 millj. á hvoru ári. Annað er varanlegt. Hér er gerð tillaga um varanlega breytingu á tekjuskattshlutfalli til að koma til móts við hækkanir á útsvari. Breytingin á fasteignagjöldunum er líka varanleg. Þar tekur ríkið varanlega yfir u.þ.b. 1.100 millj. kr. sem koma íbúum sveitarfélaga á landsbyggðinni fyrst og fremst til góða. En sveitarfélögin sjálf standa jöfn eftir.

Hver er þá ástæðan fyrir því að ég tel ekki að ríkið eigi að bera þennan mismun? Hún er sú að það er ekki rétt sem fram hefur verið haldið að ríkissjóður hafi verið að græða og þéna sérstaklega á tekjutapi sveitarfélaganna. Ég er hér með blaðaúrklippu, fréttaúrklippu, þar sem borgarstjórinn í Reykjavík heldur því fram að ríkissjóður hafi haft af því stórfelldan ávinning að sveitarfélögin skyldu tapa tekjum. (Gripið fram í.) Það hafa ýmsir aðrir tekið í svipaðan streng, verið að leggja hér saman tekjur sveitarfélaganna og ríkisins og sagt: ,,Þetta stemmir alveg nákvæmlega. Ríkissjóður er búinn að hafa allt þetta fé af sveitarfélögunum.`` Þetta er bara algjör misskilningur og þvæla, virðulegu þingmenn.

Sveitarfélögin hafa í einhverjum tilfellum borið skarðan hlut frá borði vegna lagasetningar hér á Alþingi. Það er rétt. En ríkissjóður hefur ekki tekið þá peninga og stungið þeim í vasann. Þvert á móti hefur ríkissjóður í mörgum tilvikum líka tapað á umræddum lagabreytingum, eins og t.d. þegar viðbótarlífeyrissparnaður var gerður skattfrjáls, eins og t.d. þegar hlutabréfakaup eru gerð frádráttarbær og tekjuskattsstofninn lækkar þá samhliða útsvarsstofninum. Þetta er því bara ekkert rétt.

Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar að sveitarfélögin eigi að hafa rúmar álagningarheimildir, vegna þess að það á að treysta forsvarsmönnum þeirra fyrir því að fara með slíkar heimildir. Þeim er vel treystandi til þess. Þeir bera pólitíska ábyrgð alveg eins og við og eru kjörnir fulltrúar alveg eins og við þingmenn. Þess vegna var ég ekki á móti því að rýmka þessar útsvarsálagningarheimildir. Þvert á móti. En það er óeðlileg krafa að mínum dómi að ríkið lækki álagningarhlutfall sitt í tekjuskatti á nákvæmlega sama hátt. Reyndar tel ég að í þeirri álagningu sem birtist almenningi eigi að gera skýrari greinarmun á því hvað rennur til sveitarfélaga og hvað rennur til ríkisins þannig að almenningur geti áttað sig betur á því, því að það vill nú gjarnan ruglast í staðgreiðsluhlutfallinu okkar hvað er hvers í því dæmi, eins og kom t.d. í ljós þegar ríkissjóður lækkaði tekjuskattinn um 1% í ársbyrjun 1999 en Reykjavíkurborg hækkaði útsvarið um það sama, hirti skattalækkunina af borgarbúum á sama tíma. En borgarbúar urðu einskis varir á sínum staðgreiðsluseðli, á sínum launaseðli, vegna þess að það sést ekki hvert þetta rennur, þ.e. hvað rennur hvert.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði mig að því hvort skattalækkunin 1997, sem þessi lækkun 1999 var hluti af, hefði verið hluti af kjarasamningum. Vissulega var hún gerð í tengslum við kjarasamninga 1997 en hún var ekki umsaminn partur af þeim enda hefur verkalýðshreyfingin ævinlega sagt að þetta hafi ekki verið sú leið sem hún vildi fara að því er varðaði skattalækkanir. Hún vildi fara aðrar leiðir. Ríkisstjórnin tók að sjálfsögðu á sig ábyrgðina á því. En það var áreiðanlega ekki partur af þeim kjarasamningum sem gerðir voru 1997 að einstök sveitarfélög hirtu skattalækkunina af skattborgurunum eins og gert var hér í ársbyrjun 1999.

Ég tel ekki að útsvarshækkun nú, til að mynda upp á 0,33% yfir línuna ef öll sveitarfélög hækka útsvarið, stefni kjarasamningum í hættu og allra síst í ljósi þeirra aðgerða sem ríkisvaldið er með í pokahorninu og birtast m.a. í því barnabótafrv. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi líka, en það felur í sér verulegar skattalækkanir. Meðalfjölskyldan mun fá 3--4% kjarabót þegar öll kurl verða komin til grafar að því er það frv. varðar og það að fullu komið til framkvæmda. Það verður áreiðanlega fleira í þessum dúr sem ríkisstjórnin mun kynna á næstunni. Við höfum t.d. kynnt að við munum beita okkur fyrir lækkun þungaskatts um 300 millj. kr. eða þar um bil nú á næstunni. Það er ekki hægt að tala um það hér að nein stórfelld skattahækkun sé í uppsiglingu, jafnvel þó svo að sveitarfélögin muni notfæra sér sína útsvarshækkunarheimild sem þau gera vafalaust mörg. Þau um það. Þau ráða því sjálf. En það er ekki hægt að tala um að hér sé stórfelld skattahækkun í gangi af þeim sökum þegar það er tekið í samhengi við það sem ríkisvaldið er að gera.

Ég get ekki lagt mat á það fyrir hönd einstakra sveitarfélaga hvað þau þurfa mikið að hækka sitt útsvar og ég hef engan áhuga á því að gera það. Ég tel að það sé verkefni annarra kjörinna fulltrúa á vettvangi sveitarstjórnanna og þeir munu gera það. Þeir þurfa að ljúka því núna í þessum mánuði og tilkynna hvaða álagningarprósentu þeir ætla að hafa við næstu álagningu. Þess vegna er brýnt að ljúka þessum málum í þessum mánuði þannig að það geti legið fyrir hver niðurstaðan í þessum efnum verður.

Fyrir þá sem hafa fylgst með þessum málum og starfi tekjustofnanefndarinnar er það ljóst að um tíma stefndi í aðra niðurstöðu en hér er orðin ofan á og útsvarshækkunarheimildirnar eru rýmri en gert var ráð fyrir um tíma. Þegar það mál var borið undir mig sem fjmrh. taldi ég eðlilegt að fallast á að hún yrði 0,66 nú þegar og 0,33 frá ársbyrjun 2002, af þeim ástæðum sem ég hef skýrt að ég tel að þessar heimildir eigi að vera rúmar.

[19:00]

En ekki er þar með sagt að ríkið eigi að borga þetta, jafnvel þó að ríkið standi vel eins og Viðskiptablaðið heldur fram og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var að taka hér undir með því að lesa upp úr Viðskiptablaðinu. Hann stendur vel, það er rétt, en ekki er þar með sagt að eðlilegt sé að gera slíka kröfu og það er margt annað sem þarf að huga að í því sambandi. En ljóst er að afgangurinn sem kynntur var í fjárlagafrv. upp á 30 milljarða kr. fyrr í haust mun minnka af þessum sökum um 3 milljarða á næsta ári að óbreyttu. Nú vitum við að sjálfsögðu ekki hvað gerist með aðra þætti frv., en það liggur fyrir að þetta mun gerast og ljóst er að erfitt verður að bæta þetta upp og þess vegna er mikilvægt að sveitarfélögin noti þessar auknu tekjur til að að bæta fjárhagslega stöðu sína almennt séð, borga upp skuldir en eyði þessu ekki í auknar framkvæmdir eða útgjöld sem mætti komast hjá, alla vega meðan verið er að komast yfir kúfinn á þeim skuldum sem þau hafa við að glíma og hafa verið að kvarta undan og sem hér hefur einnig borið á góma.

Þetta vildi ég að kæmi fram af minni hálfu, herra forseti. Ég tel að niðurstaða tekjustofnanefndarinnar sé sanngjörn niðurstaða. Hún er að sumu leyti málamiðlun og millileið milli ólíkra sjónarmiða, að sumu leyti felast í henni leiðréttingar á augljósu misrétti eins og tíðkast hefur hér að því er varðar fasteignaskatta úti á landi sem jafnvel er vafamál að standist ef á mundi reyna fyrir dómstólum. Vonandi gerist það ekki úr þessu þegar við erum að breyta þessu. En einnig er í tillögum tekjustofnanefndarinnar mjög mikilvægur áfangi að því er varðar að koma til móts við hinar veikari byggðir úti um landið sem sérstaklega hafa staðið höllum fæti. Það var gert í fyrra með sérstakri aðgerð og það er ætlunin að gera það núna í tvígang aftur eins og ég hef sagt og ég tel að það sé nauðsynlegt, jákvætt og gott fyrir viðkomandi. Ég hef minni áhyggjur af þeim sem telja sig þurfa að verða sér úti um fólksfjölgunarframlög en þeim sveitarfélögum sem hafa orðið fyrir þeirri fólksfækkun og því tekjutapi sem við höfum margrætt hér og þekkjum vel. Sveitarfélög með fólksfjölgun eru að koma sér upp nýjum útsvarsgreiðendum og nýjum tekjustofnum og það mun ekki væsa um þau sveitarfélög þegar þeir fara að skila arði til sveitarfélagsins sem vonandi verður innan tíðar.