Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 14:25:20 (1690)

2000-11-14 14:25:20# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki skal ég vanmeta þá hina merku skýrslu sem liggur á borðum þingmanna um friðarstarfið. Ég vek aðeins athygli á því að við sáum hana ekki fyrr en við settumst niður til að hlýða á hæstv. ráðherra. Við höfum því ekki haft tíma til þess að kynna okkur efni hennar að nokkru leyti.

Um Evrópumálin vil ég aðeins segja þetta: Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að skýrsla hans frá því á liðnum vetri hefur orðið til þess að vekja umræður í samfélaginu um Evrópumálin. Það er rétt hjá honum að ýmis fjölmenn samtök eins og Samtök iðnaðarins, Verslunarráð og nú stærstu samtök íslenskra launamanna eru ekki bara að ræða þessi mál heldur að taka afstöðu til þeirra. Það er vissulega merkilegt og það má vissulega rekja til skýrslu hæstv. ráðherra.

Ég spurði hæstv. ráðherra: Á Alþingi sem stofnun að vera einhver eftirbátur hér? Þegar þessi umræða er komin af stað, m.a. fyrir tilverknað hans og fleiri góðra karla og kvenna, er þá ekki rétt og eðlilegt að Alþingi íhugi að endurvekja Evrópustefnunefndina með aðild allra þingflokka sem starfaði á árunum áður þannig að Alþingi geti lagt lið þeim umræðum sem fram fara nú í landinu hjá hinum ýmsu aðilum og að þar geti komið að málsvarar allra viðhorfa á Alþingi, ekki bara þeir sem eru jákvæðir fyrir því að þessi umræða leiði til einhvers tiltekins árangurs heldur líka hinir. Auðvitað mun koma að því að þetta verði gert en er það tímabært að gera það nú á þessum vetri eða telur hæstv. ráðherra tímabærara að doka eitthvað eilítið við?