Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 14:29:14 (1692)

2000-11-14 14:29:14# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. utanrrh. að vissulega er það tímabært og raunar skylda stjórnmálaflokkanna að hefja umræður um framtíð Íslands í Evrópu, undirbúa sig undir það. Það er einfaldlega staðreynd að aðeins tveir af fimm stjórnmálaflokkum hafa hafið þá umræðu. Þrír hafa ekki gert það. Einhverjir þeirra hafa þegar mótað sér afstöðu án þess að umræðurnar hafi farið fram.

Hins vegar er mjög eðlilegt þegar almannasamtök og hagsmunasamtök eins og Alþýðusambandið, eins og Samtök iðnaðarins og aðrir slíkir eru farnir að hefja umræðuna að sambærileg umræða eigi sér stað á Alþingi. Sú leið var farin á sínum tíma að setja til þess sérstaka nefnd, sérstaka Evrópustefnunefnd. Ég tel tímabært að huga að því hvort ekki sé rétt að endurvekja hana. Ég tók eftir því að hæstv. utanrrh. hafði út af fyrir sig ekkert á móti því, sagði réttilega að það væri ákvörðun Alþingis sem það er.

Ég þakka hæstv. utanrrh. líka fyrir að svara spurningu minni varðandi endurskoðun bókunar með varnarsamningnum. Hann svaraði á þá leið að þær viðræður væru ekki hafnar. Stefna Íslands eða íslensku ríkisstjórnarinnar væri sú að þar yrði engu breytt en hann svaraði ekki þriðju spurningu minni hvort gera mætti ráð fyrir því að þegar sú umræða hæfist mundi stjórnarandstöðunni með einum eða öðrum hætti verða veitt aðild að henni, a.m.k. þannig að hægt væri að fylgjast með þeim umræðum og ég vildi gjarnan fá svar hans við þeirri spurningu líka.