Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 14:31:11 (1693)

2000-11-14 14:31:11# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans. Eins og hann gat um ber skýrslan þess að sjálfsögðu vott að á síðasta þingi var lagt fram ítarlegt yfirlit um utanríkismál og þar á meðal mikil skýrsla um Evrópusamstarfið og var það athyglisvert að þeirri skýrslu var almennt mjög vel tekið hvaða afstöðu sem menn hafa til Evrópusambandsins sem slíks.

Ég get ekki tekið undir það með síðasta ræðumanni að ekki sé imprað á nýjungum í skýrslu utanrrh. Þar er mjög athyglisverður kafli sem fjallar um friðargæslu studdur með skýrslu nokkurra ráðuneyta. Hér er um að ræða athyglisverð og merkileg áform ríkisstjórnarinnar um að efla þátttöku landsins í alþjóðlegri friðargæslu og í friðaraðgerðum eins og hefur nú tíðkast að kalla það flókna ferli sem friðarstarf hefur þróast í. Þennan ásetning ber að skilja sem aukið framlag okkar Íslendinga til öryggismála og þátttaka í friðaraðgerðum er sá hluti öryggismála sem fellur langbest að eðli og uppbyggingu íslensks samfélags sem býr yfir mikilli þekkingu á ýmsum sviðum sem getur nýst til friðargæslustarfa. Ég nefni þar t.d. reynslu og þekkingu á sviði almannavarna og sterkt heilbrigðiskerfi. Aukin þátttaka Íslands í friðargæslu mun styrkja stöðu okkar innan NATO og Öryggissamvinnustofnunar Evrópu og efla tengsl okkar við Evrópuríkin. Hér er því um að ræða mjög mikilvæga ákvörðun sem ástæðulaust er að gera lítið úr.

Það er reyndar löng hefð fyrir því að Íslendingar sinni friðargæslustörfum. Þeir hafa gert það í hálfa öld, en mjög aukinn þungi er á þessum vettvangi nú á síðustu árum. Samstarf hefur tekist við Norðmenn en einkum og sér í lagi Breta um þjálfun íslensks starfsfólks, einkum lækna og hjúkrunarfólks og hefur það staðið sig með afbrigðum vel. Árangurinn er viðurkenndur innan NATO og hjá Sameinuðu þjóðunum og ÖSE og er það vel að svo sé.

Ég tek fram að mér finnst yfirlit hæstv. utanrrh. um Evrópumálin ánægjulegt. Það er mjög mikils virði að EFTA-ríkin nýti EES-samninginn á markvissari hátt til þess að tryggja samræmi á svæðinu og til að koma sjónarmiðum EFTA/EES-ríkjanna betur á framfæri en verið hefur. Ljóst er að kynningarstarf á samningssviðinu, bæði gagnvart starfsmönnum ESB en ekki síst þegar þar að kemur gagnvart nýjum aðildarríkjum ef af stækkun sambandsins verður, að þetta kynningarstarf er afar mikils virði.

Þá verður einnig forvitnilegt að fylgjast með því með hvaða hætti aukin samvinna getur þróast við Evrópuþingið og á hvaða forsendum hægt er að efla það. Nú þegar hefur Alþingi samstarf við Evrópuþingið sem er í góðum farvegi og við eigum þar marga vini innan þingsins sem vilja gjarnan leggja okkur lið.

Að því er ríkjaráðstefnu EES varðar liggur það í loftinu að til standi að styrkja stöðu stærri ríkja sambandsins á kostnað hinna minni. Þessi þróun er merkjanleg í umræðum um uppstokkun atkvæðavægis og í umfjöllun um aukinn hlut ákvarðana með meiri hluta. Þá er einnig ljóst að smærri ríkin í ESB líta á að veikari staða framkvæmdastjórnar ESB gangi gegn hagsmunum þeirra. Að þessu leyti er hægt að líkja saman stöðu smáríkja EFTA-megin í EES-samstarfinu og stöðu smáríkja almennt í ESB. Báðir aðilar telja stöðu sína veikjast með auknum völdum og áhrifum ráðherraráðsins. Nauðsynlegt er að benda á að hér er ekki um að ræða neitt sérvandamál EFTA/EES-ríkjanna heldur sameiginlegt vandamál smærri ríkja í ESB.

Segja má að nokkur óvissa hvíli yfir framtíðarþróun ESB, ekki síst eftir þjóðaratkvæðagreiðslu Dana um evruna. Atkvæðagreiðslan kemur til með að hafa víðtæk áhrif innan ESB þrátt fyrir yfirlýsingar ráðamanna í Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi um hið gagnstæða. Innan bresku ríkisstjórnarinnar eru jafnvel mjög skiptar skoðanir um hvort þeir eigi að óska eftir aðild að evrunni, jafnvel skiptar skoðanir um hvort eigi að leggja það í þjóðaratkvæði.

Það er athyglisvert að Gordon Brown, fjármálaráðherra Breta, hefur talið að aðild Breta að evrusvæðinu væri háð fimm skilyrðum. Í fyrsta lagi hvort það væri jákvætt fyrir atvinnuuppbyggingu en á því leikur mikill vafi hvort fjárfestingar nytu góðs af slíkri aðild. Einnig tek ég sérstaklega fram að ein af þeim áherslum sem fjármálaráðherra Breta hefur lagt í þessu máli er sú að það yrði skilyrði að efnahagssveiflur Breta færu saman við efnahagssveiflur í ESB, en það er einmitt sá farvegur, hvort efnahagssveiflur innan Evrópu falla að efnahagssveiflum, uppgangi og erfiðleikum í einstaka ríkjum sem skiptir meginmáli um það hvort menn geti reiknað með því að evrusvæðið sé hagstætt fyrir þjóðir t.d. eins og Íslendinga. Það er ljóst að efnahagsmál á Íslandi þróast með allt öðrum hætti en algengt er í Evrópusambandinu og einnig er ljóst að ef við værum aðilar að ESB og evrusvæðinu núna mundum við sennilega standa frammi fyrir gífurlegri verðbólgu á Íslandi vegna þess hversu evran hefur veikst mikið.

Það sem Gordon Brown hefur einnig nefnt sérstaklega sem skilyrði er að ganga úr skugga um að Bretland hafi nægilegan sveigjanleika í efnahagslífi sínu til þess að standast áraun evrusvæðisins. Þetta nefni ég sérstaklega vegna þess að greinilegt er að jafnvel meðal þeirra í Bretlandi sem hafa einna sterkastan og mestan áhuga á því að efla tengslin við Evrópusambandið og þar með evrusvæðið eru miklar efasemdir um þetta. Flestir túlka þróun mála á þann veg að talsvert hafi dregið kraft úr þeim sem vilja stefna að sem dýpstu heildarsamstarfi ríkjanna og stefna að bandaríkjum Evrópu og að sama skapi hafi staða þeirra styrkst sem vilja að sambandið verði vettvangur lýðræðislegs samstarfs sjálfstæðra Evrópuríkja. Síðarnefnda afstaðan er sterk meðal Skandinava og Breta en á sér einnig marga málsvara í öðrum Evrópusambandslöndum. Reiknað er með að á ríkjaráðstefnunni sem nú stendur yfir verði settar reglur um það á hvern veg aðildarríki geti samið um frekara samstarf sín í millum án þess að öll aðildarríkin taki þátt í slíku samstarfi. Sú þróun er grein á meiði þeirra breyttu viðhorfa sem eflst hafa nú á síðustu árum innan sambandsins og beinast gegn myndun evrópsks sambandsríkis en tengjast einnig þeim sveigjanleika sem hugsanleg stækkun sambandsins gæti krafist.

Athyglisvert er að ekki er neinn einhugur um það hvernig eigi að túlka þessi nýju viðhorf. Ýmist eru þau túlkuð sem vilji til að auka sveigjanleika í samstarfi ESB-þjóðanna ellegar þá sem tákn um erfiðleika í samstarfi og stefnuleysi.

Sérstaklega ber að fagna því frumkvæði Finna að vinna að mótun hinnar norðlægu víddar ESB. Sambandið hefur verið mjög sjálfhverft undanfarið vegna stofnanavanda, slagsíðu á lýðræðisþróun innan valdastofnana þess og vegna átaka um innbyrðis valdahlutföll þjóða í millum. Frumkvæði Finna var því mikilvægt og beindi athygli sambandsins til grannsvæða í norðri. Aðgerðaáætlun sambandsins fyrir árin 2000--2003 varðar mjög mikilvæga málaflokka, svo sem orkumál, umhverfismál, kjarnorku- og öryggismál, upplýsingasamfélagið, samgöngumál, rannsóknir og menntamál. Áætlunin kemur til með að hafa áhrif á stöðu grannsvæðanna, ekki síst með samtengingu við Barentsráðið og Eystrasaltsráðið. Möguleg tenging þessarar nýju víddar, stefnumótunar ESB við heimskautaráðið, er afar áhugaverð, ekki síst með tilliti til þess hve mikilla hagsmuna við eigum að gæta í umhverfismálum á heimskautasvæðunum.

Á fjórðu ráðstefnu þingmanna heimskautasvæða sem haldin var í Rovaniemi í lok ágúst sl. fjallaði Paavo Lipponen, forsætisráðherra Finna, um þá athygli sem stjórnvöld, ekki aðeins innan ESB, heldur einnig í Bandaríkjunum og í Kanada beindu nú að heimskautasvæðunum og þeim tækifærum sem þessi athygli skapaði fyrir aðildarríki heimskautaráðsins. Í lokayfirlýsingu ráðstefnunnar vakti athygli sú ákvörðun ráðsins að beita sér sérstaklega fyrir því að gerð yrði skýrsla um þróun mannlegs samfélags á heimskautasvæðunum innan ramma þeirrar vinnu sem Sameinuðu þjóðirnar hafa haft forsögu um. Ákvörðun ráðsins er byggð á tillögu sem fulltrúar Íslands og Finnlands höfðu forgöngu um að móta. Hugmyndin er að færa út vísindalega umfjöllun um heimskautasvæðin þannig að þar gæti jafnvægis milli náttúrufarslegra, efnahagslegra og þjóðfélagslegra þátta. Sú athygli vísindanna sem beinst hefur að heimskautasvæðunum hefur af skiljanlegum ástæðum verið nokkuð einhliða og þá fyrst og fremst frá sjónarhóli náttúruvísindanna. Nauðsynlegt er að breikka sjónarhornið.

Þessi sjónarmið komu einnig mjög skýrt í ljós á fyrstu ráðstefnu NRF, Northen Research Forum, sem haldin var á Akureyri fyrir nokkrum dögum með þátttöku vísindamanna, stúdenta, embættismanna og aðila úr atvinnulífinu frá öllu heimskautasvæðinu. Samstarf stjórnmálamanna og vísindamanna að alþjóðlegum viðfangsefnum eins og þeim sem snerta heimskautasvæðið er afar mikilvægt. Ráðgjöf vísindamanna til stjórnmálamanna verður æ mikilvægari þáttur í stjórnmálastarfinu. Það hefur hins vegar verið mjög áberandi að vísindaleg ráðgjöf hefur verið einhliða og ekki stuðst nægilega við það sem við getum kallað þverfagleg vinnubrögð. Ráðgjöfina hefur því iðulega skort þá vídd sem er í samræmi við viðfangsefni stjórnmálanna. Á þessu er vaxandi skilningur meðal vísindamanna og er það líklegt til þess að styrkja samstarf þeirra og stjórnmálamanna og efla alþjóðlegt samstarf.

Mig langar til að víkja að því sem hæstv. utanrrh. gat um en það er hið mikla menningarátak sem unnið var í Bandaríkjunum og í Kanada til að minnast landafunda og landkönnunarafreka norrænna manna vestan hafs. Ég geri ráð fyrir að flestir geri sér grein fyrir því að mikil áhætta var tekin þegar ráðist var í þetta verkefni. Mjög tvísýnt var að tækist að vekja athygli á málinu jafnvel þótt miklum fjármunum á íslenskan mælikvarða væri varið til þess. Þegar upp er staðið ber að viðurkenna að frábærlega vel tókst til með þetta verkefni. Viðburðirnar vöktu mikla athygli og beindu sviðsljósinu að norrænni menningu en ekki síst að þeirri þjóð, Íslendingum, sem mest hefur lagt af mörkum til að varðveita upplýsingar um framlag norrænna þjóða til heimsmenningarinnar. Ég held að á þessu sviði hafi verið unnið afrek sem eigi eftir að stórefla samband Íslendinga við Kanadamenn og Bandaríkjamenn og muni koma til góða ekki síst á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu hér á landi. Hér er því á ferðinni mikilvægt dæmi um samtengingu utanríkismála og atvinnu- og menningarmála hérlendis sem varpar ljósi á hve samtvinnuð utanríkismálin eru orðin margvíslegum innlendum hagsmunamálum.

Íslendingar hafa verið á undanförnum árum að styrkja verulega stöðu sína í alþjóðlegum viðskiptum. Þessi þróun hefur orðið til þess að skjóta mun fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf en það hvíldi á fyrir um það bil áratug. Utanrrn. hefur leitast við að styðja og efla þá þróun og er það vel. Stofnun þriggja nýrra sendiráða sem ákveðið er að hrinda í framkvæmd á næsta ári er til marks um þessa viðleitni. Við eigum í vaxandi mæli viðskiptalegra og pólitískra hagsmuna að gæta um allan heim og brýnt er að við tryggjum íslenskum fyrirtækjum sem leita fyrir sér erlendis og erlendum fyrirtækjum sem vilja efna til starfsemi hérlendis sem öruggast lagaumhverfi. Þátttaka okkar í EES hefur tryggt stórstígar framfarir í þessa átt. En viðskiptaaðilar okkar eru ekki einungis innan ESB, við eigum líka mikla hagsmuni annars staðar. Í þessu sambandi vil ég í lok máls míns beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort til standi að undirrita og fullgilda fyrir Íslands hönd sáttmála Sameinuðu þjóðanna um gagnkvæma viðurkenningu erlendra gerðardóma eða svokallaðan New York-sáttmála. Sáttmálinn tryggir okkur, ef við gerumst aðilar að honum, að gerðardómar kveðnir upp á Íslandi verði viðurkenndir erlendis og jafnframt að gerðardómar sem kveðnir eru upp í öðru ríki, aðildarríki sáttmálans, verði viðurkenndir og þeim framfylgt hér á landi. Sáttmálinn er hluti af þeirri réttarstöðu og því gagnsæja umhverfi sem nauðsynlegt er að skapa fyrirtækjum í alþjóðlegum viðskiptum.

Ég vil að lokum taka undir athugasemdir hæstv. utanrrh. um mikilvægi þess að efla tengslin við Rússland. Utanrmn. sendi sendinefnd til rússneska þingsins sem átti þar viðræður við fjölmarga aðila. Í þeim viðræðum kom í ljós að mikill vilji er til þess að efla sambandið milli þinganna tveggja og vil ég sérstaklega nefna athyglisverða og ánægjulega heimsókn sem utanrmn. átti í norrænu- og íslenskudeild háskólans í Moskvu þar sem fer fram íslenskukennsla. Ég vil segja það í lokin að við eigum að standa á bak við íslenskukennslu á erlendum vettvangi því að þeir sem stunda nám í íslensku í erlendum háskólum eru á vissan hátt sendiherrar Íslands erlendis.