Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:36:19 (1710)

2000-11-14 15:36:19# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég mun í máli mínu tæpa á nokkrum atriðum sem hæstv. utanrrh. gerði að umfjöllunarefni í skýrslu sinni og vík fyrst að friðargæslunni.

Frá 1994 hafa alls 50 manns starfað að friðargæslu á vegum Íslands í Bosníu og Kosovo, flestir þeirra hafa komið úr röðum lögreglumanna, lækna og hjúkrunarfræðinga, eins og segir í ritaðri ræðu hæstv. ráðherra. Í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að 164,5 millj. kr. verði varið til þessa verkefnis. Hæstv. utanrrh. segir Íslendinga hljóta að taka virkan þátt í friðaraðgerðum, þá skyldu leggi aðild okkar að NATO, Sameinuðu þjóðunum og ÖSE okkur á herðar. Um það er ekki deilt, herra forseti, en hins vegar leyfi ég mér að benda á að til eru margvíslegar leiðir. Margvíslegar leiðir eru færar til þess að stuðla að friði og velferð hér í heimi og þær eru margar fleiri en friðargæsla, hvað þá friðargæsla herlausrar þjóðar. Það má t.d. gera með auknum framlögum ríkisins til frjálsra félagasamtaka sem starfa á sviði neyðarhjálpar og þróunarsamvinnu, en í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að 17 millj. kr. fari til mannúðarmála og neyðaraðstoðar.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í nýframlagða skýrslu frá utanrrn. um þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu sem við þingmenn fundum á borðum okkar við upphaf umræðunnar. Þar kemur fram, með leyfi hæstv. forseta, að kostnaður við hvern starfsmann sem starfað hefur á vegum Íslands við friðargæslu, hafi numið frá 5 til 8 millj. kr. á ári. Vert er að benda á, herra forseti, að þrír starfsmenn, eða fyrir þær 17 millj. kr. sem við ætlum að verja til mannúðar- og neyðaraðstoðar á næsta ári, mætti senda tvo til þrjár friðargæsluliða til útlanda. Það samsvarar sem sagt öllu framlagi til mannúðarmála og neyðaraðstoðar á næsta ári.

Ég er ekki að halda því fram, herra forseti, að fénu til friðargæslunnar sé illa varið, því fer fjarri. Ég vil hins vegar draga fram mismun í framlögum til friðargæslunnar annars vegar og svo til mannúðarmála og neyðaraðstoðar hins vegar. Ef áætlanir hæstv. utanrrh. um að senda 50 Íslendinga til friðargæslu á næstu árum standast, þá kostar það okkur um 250 millj. kr. ef við miðum við að hver maður kosti 5 millj. á ári, miðum sem sagt við lægri töluna sem kemur í framlagðri skýrslu.

Ég hygg að þetta sýni okkur frekar en nokkuð annað, herra forseti, að við hljótum að geta gert miklu betur og varið meira fé til mannúðarmála og neyðaraðstoðar á alþjóðlegum vettvangi. Ég beini þeim eindregnu tilmælum til hæstv. utanrrh. að litið verði til fleiri verkefna en friðargæslu á þessu sviði á næsta ári og næstu árum. Reynslan sýnir okkur nefnilega að framlög ríkisins til mannúðarmála og neyðaraðstoðar, sem látin eru í hendur traustra, frjálsra félagasamtaka, skila sér margfalt til þeirra sem mest þurfa á aðstoð að halda. Á mannamáli heitir það að fá mikið fyrir peninginn.

Það vekur einnig athygli mína að friðargæsluverkefnið bætist á verkefnalista alþjóðaskrifstofu utanrrn. sem á að sjá um ráðningu, undirbúning og þjálfun starfsliðs og almenna umsjón með starfseminni. Það er augljóslega ærinn starfi, herra forseti, og ég velti því fyrir mér hvort undirbúningur og þjálfun þurfi endilega að vera í höndum ráðuneytisins.

Næst vil ég víkja að mannréttindum, herra forseti.

Hæstv. utanrrh. segir Ísland leggja áherslu á réttindi kvenna og barna í alþjóðlegum samskiptum og bendir á að þeim sjónarmiðum hafi veri haldið á lofti í samskiptum við kínversk og indversk stjórnvöld. Ekkert er hins vegar sagt um hver viðbrögð ráðamanna í þessum löndum hafi verið við málflutningi fulltrúa Íslands. Fróðlegt væri að heyra frá hæstv. ráðherra um það og skoðun hans á því hvort ráðamenn, t.d. í Kína, skelli skollaeyrum við ábendingum okkar, ellegar taki vel í þær. En ófá tækifæri hafa gefist á liðnum missirum til skoðanaskipta við kínverska ráðamenn.

Herra forseti. Mikilvægt er að hafa það í huga í umræðunni að jafnrétti felur ekki aðeins í sér kvenfrelsi og jafnrétti kynja, heldur einnig jafnan rétt þjóða og þjóðarbrota til að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða samtíð og framtíð, rétt einstakra hópa innan samfélagsins til að njóta verndar og öryggis, fyrir tilstuðlan samfélagsins og til að njóta virðingar og sama réttar til áhrifa og aðrir þegnar njóta. Utanríkisstefna okkar verður ávallt að hafa mannréttindi og jafnræði að leiðarljósi og gildir þá einu um hvaða málefni er verið að ræða.

Herra forseti. Á leiðtogafundi svokallaðra G-8 leiðtoga í Köln árið 1999 var samþykkt áætlun um að fella niður skuldir allra fátækustu ríkja heims. Samkvæmt henni átti að verja jafnvirði 100 milljarða Bandaríkjadala til verkefnisins. Lítt hefur miðað og eftir Okinawa-fund leiðtoganna í vor sem leið eru þrýstihópar og áhugamannasamtök um velferð fátækustu þjóða heims næsta úrkula vonar um að úr rætist í bráð. Um mitt þetta ár hafði einvörðungu 15 milljörðum dollara verið varið til verkefnisins frá því á Kölnar-fundinum. En tíminn líður og skuldastaða fátækustu ríkja heims versnar frá degi til dags. Þetta hefur m.a. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna bent á á opinberum vettvangi og gagnrýnt G-8 leiðtogana fyrir að standa ekki við gefin loforð um að létta skuldabyrði fátækustu ríkjanna.

Það er til fyrirmyndar, herra forseti, að íslenska ríkið skuli verja 200 millj. kr. til þessa átaks en hitt er jafnljóst að við þurfum að beita okkur af krafti til þess að halda öðrum ríkum löndum við efnið á næstu árum.

Þau lönd sem munu njóta góðs af þessu átaki þurfa víst að leggja fram áætlanir um þjóðarbúskap sinn. Gott væri að fá upplýst, herra forseti, hvaða kröfur eru gerðar til fátækustu ríkja heims í þessum áætlunum og hvaða kröfur hafa verið gerðar til þeirra 20 ríkja sem mér skilst að hafi uppfyllt kröfurnar sem ég er að spyrja um.

Á þessu ári birtist langtímaáætlun Þróunarsamvinnustofnunar fyrir árin 2000--2004 en á árabilinu 1999--2003 eru fjárveitingar til stofnunarinnar auknar verulega. Því ber að fagna þótt enn megi betur gera. Aukin framlög til þróunarsamvinnu leggja enn ríkari skyldur á okkar herðar að skipuleggja faglega starf ÞSSÍ og setja henni langtímamarkmið. Ég er þeirrar skoðunar að heildarstefnumótunar sé þörf í þróunarsamvinnu Íslands við önnur lönd, sú stefnumótun á að leggja þarfir og hagsmuni kvenna og barna til grundvallar. Það er von mín að ný verkefni í Úganda hafi málefni kvenna og barna að leiðarljósi en ég fer fram á að fá nánari upplýsingar frá hæstv. utanrrh. um starfssamning Þróunarsamvinnustofnunar við stjórnvöld í Úganda.

Nýlega hófst útrás íslenskra fyrirtækja til að afla sér viðskipta í þróunarríkjunum. Hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinni að íslensk fyrirtæki ættu mikið erindi til þróunarlandanna. Ég get tekið undir það að mörg íslensk fyrirtæki eiga vafalítið fullt erindi til að efla viðskipti við fátækari lönd en þau viðskipti verða að vera gagnkvæm ef báðir aðilar eiga að hafa gagn af. Ekki er nóg að við höslum okkur völl í fjarlægum heimsálfum ef við gerum ekki um leið ráð fyrir því að sömu lönd og sömu þjóðir geti selt vörur sínar á íslenskum markaði. Menn þurfa að vera samkvæmir sjálfum sér í þessum málum en ekki verður nógu oft áréttað að besta leiðin til þess að bæta efnahagsástand fátækustu ríkja heims er að opna markaði fyrir vörum þeirra.

[15:45]

Herra forseti. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs er ískyggilegt og hefur stefnt friðarsamningaferlinu milli Ísraela og Palestínumanna í voða. Það er rétt að líkast til ná þessar þjóðir ekki samningum fyrr en þeim tekst að líta hvorri á hina sem jafningja. Á morgun, hinn 15. nóvember, gæti reynt enn frekar á þann vilja, ef Palestínumenn lýsa yfir sjálfstæði sínu eins og þeir hafa stefnt að að gera á þeim degi.

Ísraelski herinn hefur gengið fram af mikilli grimmd og miskunnarleysi á hernumdu svæðunum á liðnum vikum. Í því ljósi er næsta óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld skuli hafa setið hjá við atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þegar afgreidd var tillaga þar sem ofbeldi Ísraelshers gegn Palestínumönnum var fordæmt. Samkvæmt mínum upplýsingum samþykktu 92 þjóðir tillöguna, sex greiddu atkvæði á móti henni og 46 þjóðir sátu hjá, þar á meðal Ísland. Eru þetta skilaboðin, herra forseti, sem íslensk stjórnvöld vilja senda stjórnvöldum í Ísrael um þessar mundir? Mér er spurn.

Að lokum, herra forseti, get ég ekki látið hjá líða að spyrja hæstv. utanrrh. út í samninga vegna Kyoto-bókunarinnar.

Hér á hinu háa Alþingi hefur ekki tekist að fá orð út úr ráðherrum ríkisstjórnarinnar um hvernig gangi að ná fram hinu svokallaða íslenska ákvæði.

Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðherra, Halldór Ásgrímsson, hvort hann telji líklegt að íslenska ákvæðið fáist í gegn í Haag, og hvað hæstv. utanrrh. hyggist fyrir eða hyggist leggja til, ef það tekst ekki?