Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 15:51:07 (1713)

2000-11-14 15:51:07# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[15:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er eins með þessa samninga og alla aðra samninga, við vitum ekki niðurstöðuna fyrir fram. Hv. þm. getur ekki reiknað með því að ráðherra geti svarað til um samninga sem ekki er lokið, það er einfaldlega ekki hægt og þarf ekki út af fyrir sig að ræða það frekar.

Að því er varðar kröfur til hinna fátækustu landa þá er það aðalatriðið að þessi aðstoð komi fátækasta fólkinu til góða og til þess þarf að tryggja lýðréttindi í viðkomandi löndum. Tryggja þarf mannréttindi og umfram allt þarf að tryggja að þessi aðstoð verði ekki til þess að ríkir einstaklingar í þessum löndum njóti góðs af, þ.e. að tryggja að ekki ríki spilling í kringum afgreiðslu þessara mála eins og stundum hefur verið.

Gera þarf áætlanir í viðkomandi ríkjum um hvernig framkvæmd þessara mála verði hagað, og það eru þær áætlanir sem eru teknar til samþykktar, svokallað ,,powerty reduction stragety plan``, eða áætlanir um hvernig dregið verði úr fátækt í viðkomandi löndum. Ég tel að það sé vel að þessu staðið og Norðurlöndin hafa verið í fararbroddi á þessu sviði.

Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að vera fulltrúi í þróunarnefnd Alþjóðabankans fyrir hönd Norðurlandanna og baltnesku ríkjanna í tvö ár og þá var lagt mjög á ráðin um þessi mál og ég gat þar túlkað skoðanir Norðurlandanna í þeim málum. Ég tel afskaplega mikilvægt að Íslendingar skuli taka fullan þátt í þessu og þakka þau ummæli sem hv. þm. sagði í þessu sambandi og við skulum vona að þetta muni leiða til alveg nýrrar þróunar fyrir þennan fátækasta hluta heims.