Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 16:09:01 (1716)

2000-11-14 16:09:01# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[16:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að Norðurlöndin og þar á meðal Ísland hafa kvatt til þess að alþjóðlegir fjárfestar fjárfesti í þróunarlöndunum. Það vill svo til að almennt eru öll ríki heims að sækjast eftir erlendum fjárfestingum. Rússar sækjast t.d. mjög eftir því að erlendir fjárfestar komi þar inn. Reynt er að skapa það umhverfi í Rússlandi að alþjóðlegir fjárfestar treysti því að það sé ráðlegt og tryggt að fjárfesta í því landi. Hins vegar hefur verið mjög mikill skortur á því í gegnum tíðina að alþjóðleg fyrirtæki, fyrirtæki frá ýmsum löndum, leggi í fjárfestingar í þróunarlöndunum, þessum löndum til hagsbótar.

Jafnframt er almennt viðurkennt í heiminum í dag að frjáls samkeppni og markaðskerfi sé besta vörnin gegn spillingu. Einræði og forræðishyggja sé hins vegar til þess fallin að ala á spillingu og styrkja völd þeirra manna sem hafa stolið mest frá fátækasta fólkinu í heiminum. Auðvitað er þessi stefna ávallt í mótun og þeirri áætlun sem hér er verið að tala um m.a. undir forustu Norðurlandanna hefur verið afskaplega vel tekið í þessum ríkjum. Góð samvinna er við þessi ríki um það sem fer nú fram þannig að ég vísa því á bug að með þessari aðstoð sé verið að þvinga einhverju óeðlilegu upp á viðkomandi ríki.