Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 16:11:23 (1717)

2000-11-14 16:11:23# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[16:11]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að deilurnar snúist ekki um þetta. Spurningin snýst ekki um það hvort æskilegt eða óæskilegt sé að alþjóðleg fjárfestingarfyrirtæki eða fjölþjóðlegir risar fjárfesti í þróunarríkjunum. Spurningin snýst um það á hvaða forsendum það er gert og á hvern hátt alþjóðasamfélagið kemur að þeim málum.

Við erum að ræða um niðurfellingu á skuldum til fátækustu ríkja heimsins. Menn eru að stæra sig af því sem þeir telja vel gert í þeim efnum. Ég bendi hins vegar á að þetta sé gert að mínu mati á óásættanlegum forsendum, forsendum sem þvinga þessi fátækustu ríki til að afhenda hinum fjölþjóðlegu risum eigur sínar, auðlindir sínar og þá almannaþjónustu sem þau hafa komið á fót. Um þetta snýst málið.

Hitt skal ég alveg samþykkja að auðvitað ber að búa svo um hnúta að þetta gangi ekki til spilltra einræðisherra. Að sjálfsögðu á að koma í veg fyrir að slíkt gerist en það held ég að sé barnaskapur að ætla að það verði tryggt með því að markaðsvæða alla samfélagsþjónustuna og markaðsvæða eignir þessara þjóða. Menn skyldu bara skoða dæmin af þeirri þróun og kynna sér hvað þar hafi átt sér stað.

Varðandi hinar góðu undirtektir í þessum fátækustu ríkjum heimsins vil ég upplýsa hæstv. utanrrh. að þar eru heldur betur deildar meiningar. Hvernig heldur hæstv. ráðherra að standi á því að það gengur svo illa að fylgja þessum áformum fram, áformum um að fella niður skuldir og lækka skuldir? Jú, það er vegna þess að þau vilja ekki kyngja þessum pakka. Sú er ástæðan.