Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 16:13:36 (1718)

2000-11-14 16:13:36# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[16:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Aðalatriðið í þessu máli er sú staðreynd að þessi fátækustu ríki heims eru svo skuldug að þau geta sig hvergi hreyft. Þau eru bundin á skuldaklafa. Með því að létta skuldunum af þeim eru opnaðir nýir möguleikar til sjálfsstjórnar þeirra og sjálfsforræðis. Það er aðalatriðið. Auðvitað get ég tekið undir það að ekki á að neyða menn til þess að einkavæða samfélagsþjónustu sína enda er ekki verið að því. Það er ekki verið að neyða menn til þess, það er rangt.

[16:15]

Hitt er svo annað mál að margt af því sem hv. þm. nefndi mundi falla undir samfélagsþjónustu, ég get tekið undir það. Fjarskipti og margt annað er á sviði þar sem einkageirinn er farinn að fjárfesta mjög mikið og það má segja í vaxandi mæli um nokkra aðra þætti þar sem alþjóðavæðingin hefur breytt umhverfinu. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að þessi þróunarríki geti tekið þátt í því, geti verið með í alþjóðavæðingunni og nýtt sér nútímafjarskipti sem eru undirstaða allra framfara í heiminum svo dæmi sé nefnt. Þetta eru grundvallaratriði. Ég tel að Íslendingar og önnur Norðurlönd hafi verið með réttar áherslur í þessum efnum. Aðalatriðið er að þetta verk er komið vel á veg. Ég tel að þetta sé a.m.k. í fyrsta skipti sem einhver ný von er fyrir þessi fátækustu ríki.