Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 16:15:52 (1719)

2000-11-14 16:15:52# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála því að Norðurlöndin hafi verið með réttar áherslur í þessum efnum. Því miður hef ég trú á því að þessi umræða hafi verið allt of gagnrýnislaus, að menn hafi ekki skoðað þær forsendur sem hér er unnið samkvæmt. Þetta er alltaf kynnt þannig að verið sé að fella niður skuldir, að verið sé að færa á silfurbakka einhverjar gjafir. Svo er ekki. Það er verið að þvinga þessi ríki til að gera breytingar á efnahagskerfi sínu, oft gegn vilja þeirra. Mér fannst því miður þessi forræðishyggja koma örlítið í ljós í tali hæstv. utanrrh. áðan þegar hann talaði um hvað honum fyndist eiga að vera á markaði og hvað ekki. Það kemur náttúrlega mjög eindregið fram í skýrslu hans, sem ég vitnaði í, frá 1997 þar sem hann talaði fyrir hönd Norðurlandanna á fundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Hong Kong. (Utanrrh.: Ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.) Alþjóðabankans, mun það hafa verið, í Hong Kong. (Utanrrh.: Í Washington.) Var það ekki í Hong Kong sem sú ræða var flutt? (Utanrrh.: Í Washington.) Nú? Ég get fundið þau plögg hér á eftir, (Utanrrh.: Það skiptir ekki máli.) enda skiptir það ekki öllu máli. Það sem skiptir máli er innihaldið.

Mér finnst að hæstv. utanrrh. þurfi að koma hér upp á eftir, í lok þessarar umræðu þegar hann skýrir málið nánar og segja okkur nákvæmlega hver þessi skilyrði eru. Samkvæmt þeim gögnum sem ég hef undir höndum fæ ég ekki séð að það hafi átt sér stað nein breyting frá fyrrnefndum aðlögunarlánum eða ,,structural adjustment loans`` yfir í fyrirkomulagið sem vísað var hér til áðan. Þetta eru nákvæmlega sömu formúlurnar en það verður fróðlegt að heyra hæstv. utanrrh. upplýsa Alþingi um þær breytingar sem kunna að hafa átt sér stað í þessum efnum. Ég bíð eftir þeim upplýsingum.