Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 16:18:13 (1720)

2000-11-14 16:18:13# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[16:18]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Sú umræða sem hér fer fram í dag um munnlega skýrslu utanrrh. er afar áhugaverð. Að mínu mati er þessi umræða sem við tökum tvisvar á ári um utanríkismál einhver sú áhugaverðasta sem hér fer fram. Kannski er það vegna þess að við reynum að lyfta sjónum út fyrir okkar eigin landamæri og líta á hagsmuni Íslands í samfélagi þjóðanna en ekki síður á það sem er að gerast í alþjóðasamfélaginu. Á margan hátt finnst mér að hverju sinni sé gerð tilraun til að horfa víðar yfir en almennt gerist í þröngri hagsmunaumræðu hér heima.

Nú er það svo að fulltrúar Samfylkingarinnar í utanrmn., Sighvatur Björgvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, hafa talað hér og gert skýrslunni nokkuð góð skil. Ég tek undir það sem fram hefur komið í máli þeirra megintalsmanna okkar en á sama hátt og skýrslan varpar ljósi á ýmis mál þar sem utanrrh. setur fram sína mynd af stöðu okkar í utanríkismálum þá vekur hún líka spurningar.

Það er erfitt fyrir okkur sem komum hér til að ræða þessa skýrslu að gera okkur grein fyrir því að hæstv. utanrrh. hefur mjög takmarkaðan tíma til að bregðast við þeim spurningum sem við berum fram. Hæstv. ráðherra setur fram sjónarmið sín og við lesum þau en þá kvikna spurningar út frá nærri því hverri blaðsíðu. Þannig eigum við auðvitað að taka umræðuna um utanríkismál, við eigum að bera fram spurningar og ráðherrann að leitast við að gefa sem skýrust svör. Aðeins þannig náum við þeirri umræðu sem nauðsynleg er í þessum sal.

Ég ætla ekki að halda áfram umræðu þess sem á undan mér talaði, hv. þm. Ögmundar Jónassonar, í sambandi við niðurfellingu skulda en auðvitað er það grundvallaratriði bæði í samskiptum okkar í alþjóðasamfélaginu og hjá vestrænum ríkjum með hvaða hætti við berjumst gegn fátækt og misrétti, með hvaða hætti við reynum að vera til gagns bæði í þróunarsamvinnu og á allan annan hátt. Gæðum er svo misskipt milli þjóða Vesturveldanna og þriðja heimsins. Það er auðvitað skelfilegt að sjá að hermálaútgjöld þjóða heims séu yfir 800 milljarða dala á sl. ári og hugsa til þess hvernig hægt væri að nýta það fjámagn ef við hefðum borið gæfu til þess árið 2000 að vera komin út úr því ófriðar- og átakastandi sem einkenndi umliðna öld sem menn voru að vona, eins og hér kemur fram, að hefði verið útrýmt, t.d. þegar múrinn margumtalaði féll.

Án þess að ég ætli að halda áfram þeirri umræðu sem hér fór fram fyrir nokkrum mínútum þá langar mig að spyrja ráðherrann hvort umræða hafi átt sér stað meðal utanríkisráðherra Norðurlandanna eða Evrópu um félagslegar úrbætur í alþjóðaviðskiptasamningum. Það er mál sem var mjög heitt fyrir nokkrum árum. Það náði inn í svokallaða hvítbók Delors þegar hann leiddi Evrópusamstarfið. Menn voru mjög uppteknir af því að þannig væri í raun hægt að koma til móts við þriðja heiminn og þessi fátæku lönd þar sem ríki eða fyrirtæki í Vesturheimi væru í svo ríkum mæli að flytja starfsemi sína til fátækari landa til að láta fátækt fólk vinna fyrir lægri laun til að við hér í auðlegðinni gætum eignast það fyrir enn minna en áður og eignast allt sem hugurinn girnist. Þá var rætt um um að reyna að setja einhvers konar klásúlu um félagsleg réttindi inn í viðskiptasamninga og ég spyr hvort sú umræða haldi áfram.

Mig langar líka að víkja aðeins að því sem fram kom í ræðu ráðherrans um að björtustu vonir manna um útrýmingu ófriðar og átaka hafi ekki ræst. Það var auðvitað mikil gleði þegar múrinn féll og þegar Partnership for Peace varð ráðandi afl innan NATO. Menn töldu að það væri að breytast afgerandi og jafnvel fullkomlega. En maðurinn er samur við sig og þessir draumar rættust ekki og í því sambandi er vísað í stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs. Það virkar á okkur eins og aflsmunar sé neytt í átökum Ísraels og Palestínu. Ísrael hefur notið mikillar góðvildar alþjóðasamfélagsins á liðnum áratugum, notið gífurlegs stuðnings, efnahagslegs og ekki síður siðferðilegs á Vesturlöndum. Ég hef hins vegar á tilfinningunni að nú sé svo komið að menn setji stórt spurningarmerki við það sem þar er að gerast og samúðin sé Palestínumegin. Það er auðvitað umhugsunarefni fyrir okkur hvernig þessir hlutir hafa gerst, þar sem svo sterkur stuðningur hefur verið við Ísrael.

Það er ánægjulegt að sjá að íslenska ríkið ætlar að efla friðargæslu og þátttöku í henni úti í heimi, senda fólk til þátttöku. Ég hef gluggað í þessa ágætu skýrslu sem utanrrh. leggur hér fram í dag meðan ég hef hlustað á umræðuna og skoðað tillögur starfshópsins sem fram koma í skýrslunni. Markmiðið er að fjölga friðargæsluliðum í allt að 50. Hér eru nefndar ýmsar stéttir og þá vaknar auðvitað spurningin: Á að fara inn á nýjar brautir og á að laða fleiri starfsstéttir að en hingað til? Auðvitað styð ég það en það væri áhugavert að vita hvernig staðið verður að þessum málum.

Í öðru lagi er talað um að tryggja eigi að friðargæsluliðar geti fengið leyfi frá störfum með tiltölulega skömmum fyrirvara og á næstu síðu er fjallað um að setja þurfi reglur um starfsmenn hins opinbera. Ég minni enn einu sinni á að þingflokksformenn hér í þessum sal stóðu saman að því að flytja till. til þál. um að settar yrðu reglur um rétt opinberra starfsmanna ef þeir færu til starfa erlendis. Það var að gefnu tilefni og þær reglur hafa ekki enn þá verið settar þrátt fyrir að Alþingi hafi samþykkt tillöguna, sennilega fyrir nærri þremur árum síðan. Auðvitað verður ríkisstjórnin að ræða þetta innbyrðis. Ég veit að hæstv. utanrrh. meinar vel. Hér er skýrsla sem ég býst við að ráðherrann geri að sinni en það er ekki nógu gott að það hafi verið samþykkt tillaga á Alþingi um að setja reglur en þær ekki settar. Það er ekki nógu gott að oft skuli það virka sem hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir. Ég hvet utanrrh. og treysti honum til að taka upp þetta mál.

Ég held að ég hafi ævinlega komið inn á mannréttindamál og málefni flóttamanna þegar ég hef tekið til máls við slíka umræðu. Það ætla ég líka að gera núna. Við skrifuðum nýverið undir viðauka við barnasáttmálann, um börn í stríði, og það er gott. Við undirrituðum einnig í des. í fyrra bókun við kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem opnað var fyrir kæruleið fyrir konur hjá Sameinuðu þjóðunum varðandi hvers kyns brot, að það yrði tekið fyrir í sérstakri nefnd. Mig langar að spyrja hæstv. utanrrh. hvort við þurfum að gera eitthvað meira en að undirrita þessa bókun. Kemur sú bókun á einhvern hátt fyrir þingið? Þarf að koma einhverju henni tengdu í lög hér eða er í þessu tilfelli nægilegt að hafa skrifað undir bókun hjá Sameinuðu þjóðunum eða þarf að fylgja því eftir og þá með hvaða hætti?

Ég minni líka á, af því að ég nefndi barnasáttmálann, að við höfum ekki fullgilt hann. Við höfum staðfest hann og réttindum barna hér heima er ábótavant. Við höfum ekki farið yfir barnasáttmálann með tilliti til íslenskra laga. Um það hef ég flutt tillögur þrjú ár í röð en þær hafa ekki náð fram að ganga. Samfylkingin hefur flutt margar tillögur og frv. sem varða réttindi barna og byggjast á barnasáttmálanum en við þeim hefur verið skellt skollaeyrunum. Aftur komum við að því að það er mjög fallegt að lesa skýrsluna, um hvað við viljum gera úti í heimi fyrir börn í öðrum löndum, en maður, líttu þér nær. Eigum við ekki líka að gera hið sama hér heima í auðlegðinni og miða við það sem rætt er um í þessari skýrslu?

Ég vil enn minna á að fyrir tveimur árum var kynnt frv. um flóttamenn, þ.e. þá flóttamenn sem ber hér að garði, ekki innflutning okkar sjálfra á þeim flóttamönnum sem við veljum heldur þá sem koma hér að okkar landamærum. Mannréttindasamtök gerðu athugasemdir við þetta frv. og það hefur ekki komið inn í þingið síðan. Það kemur ekki fyrir þingið þó eftir því sé gengið en það er mikilvægt, þó að þetta sé á vettvangi dómsmrn., að við sameinumst um að ganga eftir þessu, setjum hér lög með reisn um hvernig við ætlum að koma fram við þá flóttamenn sem koma til landsins. Ég mun seint þreytast á að minna á þann þátt þar til þau lög hafa séð dagsins ljós.

Síðan er það varnarsamstarfið við Bandaríkin. Ég ætla ekkert að fara inn á það en leyfi mér að segja að þó að ég hafi litið með aðdáun í vestur til þessa mikla lands lýðræðis og framfara þá hefur það sem hefur verið að gerast þar ekki verið gott í samanburði við önnur lönd í vesturheimi. Mér finnst mjög mikilvægt að hæstv. utanrrh. fór til Úkraínu. Hann ræddi þar t.d. dauðrefsinguna. Evrópa er orðin dauðarefsingarlaus. Það má segja að það sé árangur Evrópuráðsins og hæstv. utanrrh., okkar utanrrh., stóð sig vel þegar hann var formaður Evrópuráðsins. En mér finnst og hef á því skoðun að við eigum að halda mannréttindamálum á lofti alltaf við öll ríki gegnumgangandi, alveg sama hvort það er við Úkraínu sem þarf að fá til að afnema dauðarefsingu, eða Bandaríkin. Þess vegna finnst mér að hæstv. utanrrh. eigi að taka það líka upp við Madeleine Albright þegar hann er á fundum með henni t.d. eða annað frammáfólk sem hefur áhrif í þessu veru hvaða skoðun við höfum á þessum málum hjá Bandaríkjamönnum, þ.e. að þeir skuli viðhalda dauðarefsingunni, vegna allra þeirra slysalegu atriða sem þeir hafa orðið uppvísir að. Ég ætla ekki að fara nánar út í það. Mér finnst mjög mikilvægt að samskiptin við Bandaríkin séu góð. Við viljum eiga þessa þjóð að vinaþjóð. En vinur er sá sem til vamms segir og við eigum að gagnrýna þetta. Að öðru leyti tek ég undir það sem hér hefur verið sagt um bæði landafundina og móttökur þeirra og hátíðahöld vegna þúsund ára afmælisins.

[16:30]

Herra forseti. Af því að það er uppáhalds erlenda samstarfið sem ég hef tekið þátt í, Norðurlandasamstarfið, þá verð ég að segja frá því hvað mér fannst undarlegt þegar ég kom til Rússlands með forsætisnefnd Norðurlandaráðs að forráðamenn þar sögðu við okkur að þeir vildu ganga í Norðurlandaráð, að þeir vildu verða aðilar að Norðurlandaráði. Og ég vissi bara ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Ég hélt að öllum væri ljóst að Norðurlandaráð er samstarf þessara fimm þjóða sem eiga menningarlega sameiginlegar rætur, að við hefðum ákveðið og farið í gegnum það mörgum sinnum í umræðu um það samstarf að eiga góða samvinnu við önnur lönd og önnur samtök. Þannig var farið í gegnum það varðandi Eystrasaltslöndin þegar þau urðu frjáls að þau kusu að búa til sitt eigið baltneska ráð og að Norðurlandaráð mundi veita þeim alhliða stuðning á öllum mögulegum sviðum. En ég gerði mér allt í einu grein fyrir því hvernig á því stæði að á hverjum fundi var þetta nefnt, hvernig ættu þeir að fara að þessu, áttu þeir að senda inn umsókn? Það var vegna þess að hægri menn í Norðurlandaráði höfðu allt í einu farið að flytja tillögur í ráðinu um að bjóða baltnesku löndunum aðild að ráðinu. Nú er það ljóst að sú tillaga var felld hér á Norðurlandaráðsþinginu og mér hefur komið þetta mjög á óvart og finnst þetta hið mesta furðumál. En það er ekki að undra að þjóð eins og Rússar, jafnviðkvæmir og þeir eru fyrir því að vera landamæraríkið þarna í austrinu, skyldu bara ákveða það að ef Eystrasaltslöndin færu inn í Norðurlandaráð þá ætluðu þeir líka. Mér finnst þess vegna að við eigum að vanda okkur við þau vinnubrögð sem við viðhöfum, hvort sem það er nú hér eða þar og gera ekki nema það sem við meinum og ekki vera með einhver líkindalæti í Norðurlandaráði.

Að lokum, herra forseti, af því að ég hef alltaf minnst á sakamáladómastólinn og af því að við höfum fullgilt Rómarsamþykktina um Alþjóðlega sakamáladómstólinn, og ég er ánægð með það, þá spyr ég enn og aftur: Af hverju komum við ekki inn með Rúanda-dómstólinn þó ekki sé nema sem siðferðislegt mál?