Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 16:35:55 (1722)

2000-11-14 16:35:55# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[16:35]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka utanrrh. svar hans og þetta svar undirstrikar auðvitað hve lítinn tíma utanrrh. hefur til að svara hverjum og einum þingmanni, en eins og ég sagði í upphafi máls míns vakna það margar spurningar við lestur ræðu hans að við þyrftum meiri skoðanaskipti í raun og veru.

Ég skil ráðherrann þannig að það sé skoðun samstarfsaðila hans í Evrópu að þetta ákvæði, ef af verður, eigi heima hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni, að í raun og veru sé búið að víkja því þangað. Ég óska eftir að fá það staðfest.

Varðandi það sem ráðherrann sagði um 1.500 börn á vegum ABC og almennings, þá er það afskaplega gott frumkvæði að fólk í Vesturheimi taki að sér að mennta eitt barn, tvö eða þrjú. Ég á sjálf slíkt barn úti í heimi sem ég hef tekið að mér á Ceylon og ég fæ að jafnaði bréf þaðan og það gleður mig. En það léttir ekki skyldum af hinu opinbera eða samtakamætti þjóða á Vesturlöndum að reyna að taka á því hrikalega misræmi sem er á milli landa okkar og í þriðja heiminum.