Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 16:37:27 (1723)

2000-11-14 16:37:27# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[16:37]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að það léttir engum skyldum af hinu opinbera eða okkar samfélagi. Ég er aðeins að benda á það að við sem einstaklingar getum jafnframt tekið þátt í þessu mikilvæga starfi og það hafa sem betur fer margar íslenskar fjölskyldur gert og því fylgir mikil gleði og hamingja að fylgjast með þeim börnum þó að það sé með allt öðrum hætti en um sé að ræða eigin börn. Það var þetta sem ég vildi leggja áherslu á og viðurkenna það mikilvæga starf sem unnið er á þeim vettvangi. (ÖJ: En börnin í Írak?) Öll börn skipta miklu máli, hv. þm. Og ef hann efast eitthvað um vilja einstakra þingmanna hér eða utanrrh. í því sambandi þá fer hann villur vegar. En það er kannski rétt að hv. þm. ræði Írak sérstaklega og gefi utanrrh. tækifæri til þess að skýra frá skoðunum sínum. Því miður hefur hv. þm. haft hér uppi orð sem eru honum ekki sæmandi varðandi börn í Írak og það sem þar er á ferðinni, en ég ætla ekki að fara nánar út í það, við getum gert það við síðari tækifæri vegna þess að hv. þm. hefur oft rætt Írak hér. Ég hef alltaf svarað og tekið þátt í því og mér finnst óþarfi, hæstv. forseti, að hv. þm. séu að fitja hér upp á nýjum umræðuefnum þegar ég er að reyna að svara þingmönnum og hef tiltölulega stuttan tíma. En ég er tilbúinn til þess hvenær sem er að efna til sérstakrar umræðu um Írak og aðrar fullyrðingar hv. þm. í sambandi við Saddam Hussein og alla þá félaga.