Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 16:48:22 (1727)

2000-11-14 16:48:22# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[16:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Margar spurningar koma fram og ég skal gera mitt besta til að svara þeim þó að ég geri nú ekki ráð fyrir að það verði unnt. Við verðum þá að svara þeim með öðrum hætti hvort sem það er á vettvangi utanrmn. eða síðar í umræðum á Alþingi.

En varðandi spurningar hv. þm. þá ætla ég að víkja frekar að EES-samningnum í lokaræðu minni. Að því er snýr að Schengen má segja að það gangi allt saman eðlilega. Það er gert ráð fyrir að Schengen-samningurinn taki til Norðurlandanna frá og með 1. apríl og við gerum ráð fyrir að við verðum tilbúin hér á Íslandi til þess að standa við okkar skuldbindingar. Það hafa komið upp kröfur um einhverjar viðbótarbreytingar í hinni nýju flugstöð sem verið er að byggja og væntanlega þurfum við að verða við því, sem er óþægilegt vegna þess að við höfðum gengið út frá því að við hefðum gengið að öllum kröfum þegar bygging hennar var hafin.

Að því er varðar samninginn við Mexíkó þá tek ég undir það með hv. þm. að hann er mjög mikilvægur. Í sambandi við samninginn við Kanada þá eru þar ákveðin atriði sem hafa staðið í vegi. Þau lúta einkum að skipasmíðum. Við erum að gera tilraunir til þess að leysa þann ágreining sem þar er uppi. Það eru kosningar fram undan í Kanada og við munum verða í sambandi við kanadísk yfirvöld strax að kosningum loknum og þá einkum hinn nýja viðskiptaráðherra sem þar er tekinn við, sem er Brian Tobin sem áður var sjávarútvegsráðherra og áður forsætisráðherra Nýfundnalands, þannig að við munum halda því verki áfram í okkar formennskutíð. En því er ekki að neita að ákveðin vandamál hafa komið upp í þessum samningum þó við teljum ekki útilokað leysa þau.