Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:11:12 (1732)

2000-11-14 17:11:12# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Öllum er ljóst að deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs eru afskaplega flóknar og viðkvæmar. Við Íslendingar höfum því miður ekki tækifæri til að fylgjast með þeim í jafnmikilli nálægð og mörg hinna Norðurlandanna, t.d. Noregur. Við mat okkar á ástandinu styðjumst við oft og tíðum allmikið við upplýsingar sem við fáum frá hinum Norðurlöndunum.

Ég er þeirrar skoðunar að fyrir okkur sé mjög mikilvægt að hafa samráð og samstarf við hin Norðurlöndin í sem flestum málum og hafa áhrif innan þeirra á hvað afstaða er tekin. Þar með er ég ekki að segja að við eigum ávallt að fylgja þeim í atkvæðagreiðslum. En ég held að hv. þingmenn, eins og og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir, geti verið mér sammála um að það sé almennt góð afstaða að hafa sem mesta samstöðu með nágrannaríkjum okkar í viðkvæmum málum. Ég heyrði að hún talaði einmitt um mikilvægi Norðurlandasamstarfsins í alþjóðamálum með þeim hætti sem ég er afskaplega sammála.

Ég vil jafnframt þakka henni fyrir mjög góð orð í garð starfsfólks utanríkisþjónustunnar. Ánægjulegt er til þess að vita að þingmenn fái þá fyrirgreiðslu sem þeim ber í alþjóðlegu starfi sínu. Það er afskaplega mikilvægt að þingmenn taki virkan þátt í starfsemi Sameinuðu þjóðanna og kynnist málum þar. Ég er þeirrar skoðunar að sá tími sem þar er til umráða, þ.e. hálfur mánuður, sé einfaldlega of stuttur. Það þurfi meiri tíma og fleiri þingmenn að taka þátt í samstarfinu og ég hef tekið eftir því að þingmenn hinna Norðurlandaþjóðanna hafa meiri tíma til að fylgjast með málefnum í New York en íslenskir alþingismenn.