Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 17:23:13 (1735)

2000-11-14 17:23:13# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[17:23]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil eins og hv. þm. leggja mikla áherslu á alþjóðasamstarf Alþingis og þátttöku alþingismanna í því. Það er ekki aðeins mikilvægt að framkvæmdarvaldið taki þátt í alþjóðasamskiptum með þá heimsvæðingu í huga sem hvarvetna blasir við. Það er gífurlega þýðingarmikið að þjóðþingin starfi saman á alþjóðavettvangi. Það styður lýðræðisþróunina í heiminum og hefur oft skipt sköpum fyrir framfarir víða um heim.

Að því er varðar samstarf okkar við Grænlendinga og Færeyinga þá tek ég undir mikilvægi þess. Auðvitað eru samgöngurnar á milli þjóðanna mjög þýðingarmiklar í því sambandi. Það eru líka ánægjuleg tíðindi að gerast, t.d. smíði nýrrar ferju sem siglir milli Íslands, Færeyja og Evrópu, nokkurra staða í Evrópu. Það hefur verið ákveðið að smíða nýja ferju sem mun skipta sköpum í samskiptum og samgöngum milli þessara þjóða. Það er hins vegar meiri ástæða til þess að hafa áhyggjur af fluginu milli Íslands og Grænlands. En ég vil einnig nefna eitt í þessu sambandi sem við höfum tekið upp í utanrrn. og það eru samskiptin við önnur svæði á norðurhveli eins og t.d. Alaska. Það hefur komið til álita að taka flug upp á milli Íslands og Alaska á vegum Atlanta og það er mikill áhugi fyrir auknum samskiptum milli Íslands og Alaska sem m.a. voru rædd þegar utanrrh. Bandaríkjanna átti hér stutta dvöl á landinu og við áttum viðræður við hana og hennar fólk um þau mál. Það hefur verið ákveðið að fylgja því eftir með því að gera alvarlega tilraun til þess að efla samskiptin milli Íslands og þessa nyrsta ríkis Bandaríkjanna.