Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 14. nóvember 2000, kl. 18:00:53 (1744)

2000-11-14 18:00:53# 126. lþ. 24.7 fundur 110#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 126. lþ.

[18:00]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það sem gerist með þessar áætlanir er að þær eru teknar fyrir í Alþjóðabankanum og þær yfirfarnar. Hér er um að ræða skuldaniðurfellingu sem skiptir miklu máli fyrir þessar þjóðir. Það skiptir náttúrlega jafnframt afskaplega miklu máli að niðurfellingin verði til að skapa nýjar forsendur í viðkomandi landi. Af fyrri reynslu er ekki hægt að tryggja það fyrir fram. Lýðræðislegir stjórnarhættir eru ekki með þeim hætti í öllum þessum löndum að við getum gengið út frá því að þetta sé alveg öruggt. En það er lagt á það mat og matið felst fyrst og fremst í því að tryggt sé að þessi aðstoð komi þeim til hjálpar sem mest þurfa á henni að halda, þ.e. fátækasta fólkinu. Það er sú meginkrafa sem gerð er. Ég held að afar erfitt sé að fullyrða það nákvæmlega fyrir fram eða staðla það yfir öll ríkin í einu. Það verður að leggja mat á það í hverju ríki fyrir sig og það er gert. En það er unnið í samvinnu við ríkin, í samvinnu við þarlend stjórnvöld og reynt að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það. Með öðrum orðum, unnið er lýðræðislega að þessum málum, með skoðanaskiptum og upphaf málsins kemur frá ríkjunum sjálfum og síðan er það yfirfarið og endar með því að samþykkt er sú áætlun sem þar liggur fyrir og skuldirnar jafnframt felldar niður.

Auðvitað verður alltaf einhver núningur í þessu og mismunandi skoðanir. En ég tel að þarna sé lýðræðislega staðið að málum.