Búsetuúrræði fyrir fatlaða

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 13:37:53 (1751)

2000-11-15 13:37:53# 126. lþ. 25.1 fundur 40. mál: #A búsetuúrræði fyrir fatlaða# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[13:37]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Í máli hæstv. ráðherra kom fram að áætlunin hefur ekki staðist. Ekki er rétt að það hafi verið reist sambýli í Reykjavík í samræmi við áætlun biðlistanefndarinnar því að ekki hefur verið reist eitt einasta sambýli á vegum Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur ekki greitt fyrir eitt einasta sambýli í Reykjavík á þessu tímabili, þ.e. á undanförnum tveimur árum. Aftur á móti er það rétt að reist hafi verið sambýli. Annað hefur Þroskahjálp séð um að reisa en ríkið rekur og hitt hefur Öryrkjabandalagið séð um að byggja en ríkið rekur það. Þess vegna er alveg hægt að fullyrða að ekki hefur verið staðið við áætlunina hvað snýr að Reykvíkingum en þar bíða 135 manns eftir búsetuúrræðum.

Aftur á móti má segja að nær hafi gengið að standast áætlunina á Reykjanesi en þar má segja með góðum vilja að náðst hafi að reisa fimm sambýli þó svo eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á að það sé á vegum annarra sem þau voru reist eins og hefur gerst í Reykjavík, a.m.k. einhver þeirra.

Ég minni á að markaður tekjustofn til framkvæmda fatlaðra er erfðafjársjóður og í ár renna til hans 607 millj. en aðeins 235 millj. renna til framkvæmdasjóðsins. Ég verð því miður að segja að það eru veruleg vonbrigði að ekki skuli vera staðið við þá áætlun sem gerð var til að minnka biðlistana á höfuðborgarsvæðinu að ekki hefur eitt einasta sambýli verið reist á vegum félmrn. í Reykjavík þótt miðað hafi í áttina á Reykjanesi.