Fullorðinsfræðsla fatlaðra

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 13:43:41 (1754)

2000-11-15 13:43:41# 126. lþ. 25.2 fundur 41. mál: #A fullorðinsfræðsla fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég svara spurningunni eins og hún var lögð fyrir mig á þingskjalinu en þá var spurt: Hverju sætir það að menntmrn. kostar ekki fullorðinsfræðslu fatlaðra á öðrum stöðum á landinu en í Reykjavík og Akureyri? Svarið er að fullorðinsfræðsla fatlaðra er stofnun sem starfar á landsvísu og reynir að verða við óskum fatlaðra einstaklinga um símenntun. Á höfuðborgarsvæðinu hefur hún aðsetur á þremur stöðum, Blesugróf 27, Borgarholtsskóla og endurhæfingardeild Landspítalans í Kópavogi.

Þá er deild á Suðurlandi með aðsetri að Gagnheiði 40 á Selfossi og á Norðurlandi með aðsetri að Hvammshlíð 6 á Akureyri. Starfsemi fullorðinsfræðslu fatlaðra spratt upp af þjálfunarskólunum sjö sem störfuðu á grunnskólastigi við vistheimili þroskaheftra. Þessir þjálfunarskólar voru lagðir niður á sínum tíma og breyttist starfið smám saman í fullorðinsfræðslu fyrir fatlaða í námskeiðsformi. Þessi starfsemi hélt áfram að vera á vegum ríkisins þegar grunnskólarnir voru fluttir yfir til sveitarfélaganna. Námsframboð fullorðinsfræðslu fatlaðra hefur staðið öllum fötluðum einstaklingum til boða.

Stefnt er að því innan menntmrn. að skapa skýrari starfsgrundvöll fyrir fullorðinsfræðslu fatlaðra. Í þeim tilgangi skipaði ég starfshóp í byrjun þessa árs um undirbúning sjálfseignarstofnunar fyrir fullorðinsfræðslu fatlaðra. Hlutverk starfshópsins er að semja drög að skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnun er annist um og reki fullorðinsfræðslu fatlaðra. Aðilar í þessum starfshópi koma frá menntmrn., félmrn., fullorðinsfræðslu fatlaðra, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands. Starfshópurinn hefur unnið að tillögum um stofnun sjálfseignarstofnunar sem sinnir símenntun fyrir fatlaða á öllu landinu.

[13:45]

Hópurinn hefur ályktað á þann veg að menntmrh. hefji formlegar viðræður við Öryrkjabandalag Íslands og Þroskahjálp um stofnun sjálfseignarstofnunar sem taki við núverandi verkefnum fullorðinsfræðslu fatlaðra og gert verði ráð fyrir því að stofnaðilar verði þessi tvö fyrrgreindu samtök auk ráðuneytisins. Stofnunin skipuleggi símenntunarnámskeið fyrir fatlaða einstaklinga á landsvísu en geti auk þess sinnt öðrum verkefnum á grundvelli þjónustusamninga eða annarra sértekna.

Þá er ályktað á þann veg að menntmrn. muni beita sér fyrir rekstrarframlagi til stofnunarinnar sem sé eigi lægra en það sem nú rennur til fullorðinsfræðslu fatlaðra.

Í framhaldi af þessari niðurstöðu hópsins hef ég skrifað Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp bréf og óskað eftir því að við göngum til viðræðna um að koma á laggirnar sjálfseignarstofnun sem verði stofnun þessara aðila með samningi við menntmrn. um fjárveitingar til þess að stofnunin geti staðið undir þeim verkefnum sem hún á að sinna og á að ná til landsins alls eins og fullorðinsfræðsla fatlaðra gerir nú þegar. Til þess að þjóna öllu landinu mætti t.d. koma upp sérstökum deildum á landsbyggðinni eða stofna til samstarfs við starfandi símenntunarmiðstöðvar, en þær hafa nú verið stofnaðar í öllum landshlutum. Ég vænti þess að tillögur um næstu skref í þessu liggi fyrir innan skamms og það takist að koma þessu í skýrara horf þannig að einn aðili beri þessa ábyrgð með skipulegri hætti en nú er. En ég árétta það að sú þjónusta sem er í boði nær nú þegar til landsins alls.