Fullorðinsfræðsla fatlaðra

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 13:48:36 (1756)

2000-11-15 13:48:36# 126. lþ. 25.2 fundur 41. mál: #A fullorðinsfræðsla fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa spurningu því að þetta er málaflokkur sem er virkilega þess virði að ræða. Eins og fram kom á síðasta þingi eru breytingar í málaflokknum greinilega í undirbúningi og það er afar mikilvægt að fá þær upplýsingar sem hér hafa komið fram í máli hæstv. ráðherra.

Mig langar til, ef hæstv. ráðherra getur með nokkru móti í sínu síðara svari, að fá að vita örlítið um húsnæðismálin í Blesugrófinni því þar býr fullorðinsfræðslan við allsendis ófullnægjandi húsakost og sömuleiðis hvað varðar Borgarholtsskólann, að nú hefur fullorðinsfræðslan ekki samning til neinnar framtíðar varðandi aðstöðu þar. Ef það er ekki of mikil fyrirhöfn fyrir hæstv. ráðherra að bæta því við svar sitt hér á eftir þætti mér vænt um að fá að heyra frekar um það.