Fullorðinsfræðsla fatlaðra

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 13:49:31 (1757)

2000-11-15 13:49:31# 126. lþ. 25.2 fundur 41. mál: #A fullorðinsfræðsla fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör og fagna því að verið sé að vinna í að skapa skýrari starfsgrundvöll fyrir fullorðinsfræðsluna því að það er óþolandi að fólk njóti ekki jafnréttis til náms eftir því hvar það býr á landinu eins og virðist vera miðað við núverandi ástand.

Ég vil líka taka undir það hversu mikilvægt það er að nýta netið og fjarnámsmöguleikana. Ég veit til þess að það hefur staðið í vegi fyrir að fatlaður einstaklingur hafi getað stundað nám að hann hefur ekki haft aðgang að tölvu þannig að ég tel að það þurfi nauðsynlega að huga að þeim þætti þessa máls í vinnu hæstv. ráðherra. En ég fagna því að það eigi að taka þessi mál sérstaklega fyrir og leiðrétta þetta því það er óþolandi fyrir fatlaða að búa við það misrétti að hafa ekki jafnan aðgang að fullorðinsfræðslunni eins og virðist vera á Siglufirði og reyndar víðar á landinu.