Fullorðinsfræðsla fatlaðra

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 13:50:50 (1758)

2000-11-15 13:50:50# 126. lþ. 25.2 fundur 41. mál: #A fullorðinsfræðsla fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Fjarkennsla fyrir fatlaða er mál sem sjálfsagt er að huga að þegar leitað er úrræða til að koma til móts við þennan hóp. Ég vil láta þess getið að hér erum við að ræða um fullorðinsfræðslu fatlaðra. Það hefur verið gert mikið átak á undanförnum árum til þess að opna framhaldsskólana fyrir fötluðum nemendum og þar er komið til móts við þá með allt öðrum hætti en gert hefur verið nokkru sinni fyrr og það starf hefur skilað mjög góðum árangri og vonandi þróast það áfram og verður til þess að skólarnir komi æ betur til móts við þennan hóp nemenda.

Varðandi fjarkennslu þá er það að sjálfsögðu þáttur sem ber að skoða í öllu tilliti þegar um fatlað fólk er að ræða.

Varðandi húsnæðismál fullorðinsfræðslunnar er rétt að vissulega þarf að búa henni betra húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur lengi verið leitað að góðu húsnæði í því skyni og þeirri leit verður ekki hætt fyrr en við finnum góðan samastað fyrir fullorðinsfræðsluna og raunar á hið sama við um starfsemi hennar á Akureyri. Þar hafa menn einnig haft augastað á öðru húsnæði en að Hvammshlíð 6 og til þessa þarf líta þegar menn huga að þessum málum.

Við erum að þróa þetta starf. Það er greinilegt að það er mikið og þakklátt starf sem unnið er undir merkjum fullorðinsfræðslu fatlaðra og það á að leggja drög að því og styrkja það og efla frekar en nokkuð annað.