Víkingaskipið Íslendingur

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:08:10 (1767)

2000-11-15 14:08:10# 126. lþ. 25.3 fundur 149. mál: #A víkingaskipið Íslendingur# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:08]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka undirtektir við þetta mál. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra svaraði eiginlega hvorugri spurningunni. Hann svaraði hvorki spurningu um hvort hann hygðist beita sér fyrir því að skipið yrði staðsett á Íslandi eða spurningu um hvort hann teldi að það kæmi til greina að stofna sérstakt safn um siglingar Íslendinga á víkingatímanum. Hann vísaði á þá hugmynd að Reykjavíkurborg komi að þessu máli sem ég útiloka alls ekki. Ég beini því til hæstv. ráðherra hvort hann geti ekki svarað því skýrt og skorinort að hann hlutist til um að menn missi ekki af því að geta þá keypt þetta skip og það verði haft samband við eiganda þess og menn horfi ekki á eftir því í hendurnar á einhverjum öðrum áður en búið er að fara yfir þá möguleika sem eru til staðar.

Hvernig skipið verður varðveitt, þ.e. í hvers konar safni og hverjir komi að því, er kannski ekki aðalatriði málsins. Það má nefna ýmislegt í því sambandi og það koma upp fleiri nöfn en Reykjavík hvað það varðar. Það er t.d. safnið á Eiríksstöðum í Dölum sem kæmi til greina sem víkingasafn. Ég ætla ekki að kveða upp neinn dóm um þá hluti. Mér finnst hins vegar að hæstv. ráðherra skuldi okkur kannski að segja svolítið skýrar hvað hann vill í þessu og hvort hann ætlar að beita sér fyrir því að skipið verði valkostur fyrir okkur á Íslandi en tapist ekki í hendurnar á einhverjum úti í Ameríku.

Ég geri svo ekkert með það þó skipið yrði notað þar í einhvern tíma til að halda áfram kynningu á Íslandi. Það er ekki spurningin um líf eða dauða hvað þetta mál varðar heldur hver framtíð þess á að vera til lengri tíma og ég tek undir með hv. þm. Árna Johnsen sem sagði: ,,Þetta er þjóðargersemi sem við eigum að varðveita á Íslandi.``