Víkingaskipið Íslendingur

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:10:24 (1768)

2000-11-15 14:10:24# 126. lþ. 25.3 fundur 149. mál: #A víkingaskipið Íslendingur# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:10]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það kom ekkert fram í máli mínu sem gefur þingmönnum tilefni til þess að draga í efa hug minn til þess að þetta skip varðveitist á Íslandi. Ég kynnti hins vegar að það liggur fyrir borgarráði Reykjavíkur ákveðin tillaga um það hvernig það megi gera. Ég sagði að ef ríkið ætti að gera það eins og tíðkast með sjóminjar þá mundi Sjóminjasafn Íslands væntanlega taka skipið. Ekkert af minni hálfu mælir gegn því að þetta skip komi hingað til Íslands, verði eign ríkisins eða Reykjavíkurborgar eða hvers þess aðila sem vill nota það til þess að minnast þessarar fræknu siglingar. Það er algjör útúrsnúningur á orðum mínum að segja að það hafi ekki komið skýrt fram hver afstaða mín væri í þessu máli.

Hins vegar er það ljóst að menntmrh. hefur ekki umboð til þess að kaupa þetta skip fyrir hönd ríkisins. En ef til mín er leitað og ef þingmenn óska þess að ég beiti mér sérstaklega í þessu máli þá skal ég kanna hver staða þess er og kynna mér hver afstaða skipstjórans er og eiganda skipsins. (Gripið fram í.) Ég þakka traustið. Ég tel líka að það eigi að kanna hvort nota eigi skipið frekar til þess að kynna Ísland í Vesturheimi eins og hv. þm. vék að í sinni ræðu þegar hann lagði fram spurninguna, ef menn vilja halda áfram landkynningu þar. Það þarf að huga vel að öllu þessu, hvernig við nýtum þá ótrúlegu kosti sem felast í því að eiga þetta skip og að sjálfsögðu ber að sýna því fulla virðingu þegar notkun þess lýkur.