Útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:15:41 (1770)

2000-11-15 14:15:41# 126. lþ. 25.4 fundur 183. mál: #A útgjöld sveitarfélaga samfara nýrri námskrá# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er:

,,Hversu mikill kostnaður er því samfara fyrir sveitarfélögin

a. að bjóða upp á aukið val í 9. bekk grunnskóla, þar með talið í tungumálum,

b. að útbúa náttúrufræðistofur í samræmi við kröfur námskrár?``

Ný aðalnámskrá fyrir grunnskóla sem sett var samkvæmt fyrirmælum í 29. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla, tók gildi 1. júní 1999 en kemur til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku. Sveitarstjórnir hafa því þrjú ár frá gildistöku aðalnámskrárinnar til þess að koma henni í framkvæmd. Það er því ekki fyrr en eftir 1. júní 2002 sem hægt er að sannreyna kostnaðartölur í sambandi við framkvæmd námskrárinnar.

Við endurskoðun aðalnámskrár grunnskóla og setningu nýrrar aðalnámskrár var miðað við að ekki yrði farið út fyrir þann kostnaðarramma sem ríki og sveitarfélög sömdu um þegar grunnskólinn fluttist til sveitarfélaganna í ágúst 1996.

Heimild til að viðhafa val nemenda í efstu bekkjum grunnskóla hefur verið í lögum allt frá 1974. Í þeim lögum var gert ráð fyrir að valgreinar gætu tekið allt að helmingi námstímans í síðustu tveimur bekkjunum. Yfirleitt var þessi heimild einungis nýtt í lokabekk grunnskólans vegna þess að svigrúm var ekki í viðmiðunarstundaskrá sem gefin var út af menntmrn.

Í gildandi grunnskólalögum, nr. 66/1995, er sama ákvæði áfram en gert ráð fyrir að allt að þriðjungur námstímans í 9. og 10. bekk geti verið valfrjáls. Hin nýja aðalnámskrá gerir ráð fyrir að nemendum 9. bekkjar standi til boða valgreinar en ekki aðeins 10. bekkingum eins og áður var samkvæmt viðmiðunarstundaskrá. Álitamálið í þessu tilviki er það hvort og þá hve mikill aukakostnaður hlýst af því að bæta 9. bekkingum inn í valið. Rétt er að hafa í huga að allt eins getur verið um að ræða hagræðingu sem fæst við það að hafa nemendur bæði úr 9. og 10. bekk þegar litið er til valgreina, en þá væru þær skipulagðar þannig að 9. bekkingar og 10. bekkingar gætu verið saman í valgreinum. Þannig ættu að fást stærri námshópar. Þannig þarf aukið val í 9. bekk alls ekki að leiða til aukins kostnaðar.

Í umræðu um nýja aðalnámskrá var sérstaklega tekið fram af hálfu ríkisins að breytingar í kjölfar aðalnámskrárinnar yrðu þess eðlis að þær kölluðu ekki á breytingar á skólahúsnæði. Jafnvel greinar eins og ný náttúrufræði, upplýsinga- og tæknimennt og lífsleikni, sem námskráin skilgreinir og lýsir krefjast ekki nýrra kennslustofa eða öðruvísi kennsluaðstöðu og var fyrir hendi áður en grunnskólinn var fluttur. Hin nýja aðalnámskrá grunnskóla krefst þess því ekki að útbúnar verði nýjar kennslustofur vegna náttúrufræðigreina eins og gefið er í skyn í fyrirspurninni. Fjölgun kennslustunda í heimilisfærði og náttúrufræði veldur því ekki að auka þurfi skólahúsnæði. Vissulega var fjölgað kennslustundum í greinum eins og náttúrufærði en í heild hefur ný aðalnámskrá haldið sér innan þeirra marka sem grunnskólalögin frá 1995 ákvörðuðu varðandi heildarkennslustundafjölda í grunnskólum.

Í samningum ríkis og sveitarfélaga frá 4. mars 1996 varð breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga um hækkun útsvars og tekið mið af henni. Þá var enn fremur kveðið á um að mat á kostnaði og tekjuþörf við framkvæmd grunnskólalaganna á vegum sveitarfélaga yrði endurmetin í ljósi reynslunnar á árinu 2000. Það er unnið að þessu endurmati og hefur sú nefnd sem það er að vinna ekki lokið störfum.

Síðan er spurt:

,,Hvaða tekjustofnar hafa sveitarfélögunum verið tryggðir á móti þessum útgjöldum?``

Ekki hefur verið gert ráð fyrir að breyta tekjustofnum sveitarfélaga vegna valgreina í 9. bekk og náttúrufræðistofa. Það hefur aldrei komið til álita að breyta tekjustofnum sveitarfélaga af þeim sökum.

Herra forseti. Hér er því verið er að útfæra gildandi grunnskólalög um aukið val í 9. og 10. bekk með nýju aðalnámskránni og þegar þau lög voru hér til meðferðar lá fyrir kostnaðarmat á því hvað það kostaði að framkvæma lögin. Síðan hefur verið unnið samkvæmt þessum meginreglum við gerð námskrárinnar og einnig við gerð þeirra samninga sem liggja að baki flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna og gerðir voru í góðri sátt og hafa ekki verið brotnir í neinu tilliti heldur margsinnis staðfest að menn hafa staðið við það samkomulag upp á punkt og prik.