Gagnagrunnur um jarðir á Íslandi

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 14:55:59 (1788)

2000-11-15 14:55:59# 126. lþ. 25.7 fundur 153. mál: #A gagnagrunnur um jarðir á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[14:55]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Svar hæstv. landbrh. við þessari fsp. um gagnagrunn, hvort ekki væri rétt að vista hann á Hólum sem fjarvinnsluverkefni þar, var ákaflega sérkennilegt. Það fjallaði að mestu leyti til um tómatsósu, rauða en ekki græna, og hún var ansi miklir útúrsnúningar um það sem spurt var um. Mestur hluti svars hæstv. ráðherra var um fiskeldi og hrossarækt og ferðaþjónustu og annað slíkt en hann kom lítið inn á það nema í tvær, þrjár sekúndur í lok ræðu sinnar sem var um það að þetta verkefni væri ekki nýtt, sem er ekki rétt. Það kom fram hjá fulltrúum landbrn. á fundi fjárln. að þetta væri nýtt verkefni.

Það er kannski talandi dæmi um byggðastefnu núv. ríkisstjórnar það sem fólst í þessum síðustu sekúndum í ræðu hæstv. ráðherra að verkefnið er verið að vinna hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins í Reykjavík.