Gildistaka Schengen-samkomulagsins

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:39:47 (1809)

2000-11-15 15:39:47# 126. lþ. 25.10 fundur 129. mál: #A gildistaka Schengen-samkomulagsins# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:39]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það efast enginn um að stjórnmálamenn og hæstv. ríkisstjórn vill taka á þeim vaxandi vanda sem aukin fíkniefnaneysla í landinu er. Það hefur verið sett aukið fjármagn í þennan málaflokk. Maður efast heldur ekkert um að vegna Schengen-samstarfsins muni menn reyna að samræma aðgerðir og auka þá gæslu sem þó er til staðar.

En er ekki sjálfshólið orðið fullmikið þegar talað er um gífurlegan árangur meðan horft er upp á gífurlega vaxandi fíkniefnaneyslu og mikið flóð efna hér á markaðnum? Eru menn þá ekki að gleyma sér svolítið í sjálfshólinu? Væri ekki betra að taka á þessu af meiri hógværð en gert hefur verið í athugasemdum hv. þm. við fsp. og ræðu hæstv. ráðherra?