Fíkniefnanotkun í fangelsum

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:48:30 (1813)

2000-11-15 15:48:30# 126. lþ. 25.11 fundur 204. mál: #A fíkniefnanotkun í fangelsum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr í fyrsta lagi hvort þess séu nýleg dæmi að fangar í afplánun í íslenskum fangelsum hafi orðið uppvísir að notkun ólöglegra fíkniefna og ef svo sé, hvernig það megi vera.

Því miður verður stundum uppvíst um fíkniefnaneyslu í íslenskum fangelsum. Það kann auðvitað að þykja undarlegt að fíkniefni finnist yfirleitt í svo lokuðu umhverfi sem fangelsi eru en það er mikilvægt að hafa í huga að í fangelsum er safnað saman dæmdum mönnum sem hafa margir hverjir tamið sér óeðlilegan lífsstíl og margir verið í félagsskap þar sem fíkniefni eru daglegt brauð.

Eitt af helstu markmiðum fangelsisyfirvalda er að draga úr fíkniefnaneyslu eins og mögulegt er í fangelsum. Eftir upplýsingum mínum frá fangelsismálayfirvöldum munu mun færri tilvik hafa komið upp að undanförnu en oft áður og það tel ég fagnaðarefni.

Þess má geta að reglubundnar þvagsýnatökur fara fram í fangelsunum, leit með hundum og jónaskönnunarleitartæki, auk skyndileita. Eftirlit er með heimsóknagestum. Sífellt er unnið að aukinni þjálfun og bættri menntun fangavarða og í sumar var gerð tilraun með aukna tilsjón fangavarða í fangelsinu Litla-Hrauni. Unnið er úr niðurstöðum þeirrar tilraunar en stefnt er að breyttum og bættum vinnubrögðum sem beinast m.a. að því að draga úr fíkniefnaneyslu.

Helstu möguleikar á að smygla fíkniefnum inn í fangelsi eru með heimsóknagestum og þegar föngum eru veitt dagsleyfi. Að banna heimsóknir með líkamlegri snertingu og í einrúmi og í dagsleyfi samræmist ekki mannúðarviðhorfum í nútímafangavörslu og væri andstætt evrópskum fangelsisreglum. Þess vegna þarf að þræða hinn gullna meðalveg milli persónulegra hagsmuna fanga, möguleika í sambandi við umheiminn, hagsmuna ættingja fanga að hafa samband við þá og strangs eftirlits og takmarkana.

Þegar fangar verða uppvísir að fíkniefnaneyslu eru þeir beittir agaviðurlögum sem eru m.a. fólgin í heimsóknabanni og leiða til takmarkana á dagsleyfum. Um þetta mál er allítarlega fjallað í ársskýrslu Fangelsismálastofnunar ríkisins frá 1997 og er ekki tími til þess að rekja þá umfjöllun.

Hv. fyrirspyrjandi spurði sérstaklega um rannsókn á þessum málum og ég skal afhenda honum og öðrum þeim sem áhuga hafa á ljósrit og þessa skýrslu af þeirri umfjöllun.

Ég vil líka undirstrika að fíkniefnaneysla í fangelsum er ekki séríslenskt fyrirbæri, þetta vandamál er því miður meira og minna viðloðandi í fangelsum á Vesturlöndum, t.d. annars staðar á Norðurlöndum.

Í öðru lagi er spurt hvort ráðherra hafi áform um að rannsaka hvort fíkniefnanotkun viðgengst í íslenskum fangelsum í ljósi fullyrðinga sem hafa heyrst hvað eftir annað um slíkt og þá hugsanlega ástæður hennar og um aðgerðir til að fyrirbyggja hana.

Svar við þessari spurningu felst að hluta til í svari við fyrri spurningunni. Við vitum að fíkniefnanotkun viðgengst í fangelsunum og áfram verður haldið að berjast gegn slíku framferði. Að hluta til mætti ná auknum árangri með varanlegum jónaskönnunartækjum eða aukinni notkun fíkniefnahunda og fangelsisyfirvöld eru stöðugt að vinna að því að bæta aðferðir sínar til þess að sporna gegn fíkniefnanotkun í fangelsunum.

Ég legg áherslu á að þessi mál verði tekin föstum tökum og mun fylgjast grannt með þróun þessara mála hjá Fangelsismálastofnun. Ég legg jafnframt áherslu á að við eigum ekki aðeins að sporna gegn því að fíkniefnum sé smyglað inn í fangelsin heldur ber okkur ekki síður að draga úr eftirspurninni.

Á síðustu árum hafa möguleikar fanga til þess að fara í meðferð vegna eiturlyfja- og áfengisfíknar aukist. Sérstaklega á það við um hina yngri afbrotamenn sem brýnt er að fái aðstoð sem þeir þurfa á að halda til að komast á réttan kjöl í lífinu.

Ég hef lagt áherslu á að nýtt fangelsi verði reist á höfuðborgarsvæðinu þar sem m.a. færi fram móttaka og greining fanga. Þar gæfist hugsanlega færi á því að þeir sem dæmdir væru til refsivistar mundu undirgangast rannsókn sérfræðinga við upphaf afplánunar, m.a. með tilliti til heilsufars, vímuefnaneyslu, persónuþroska og félagslegra aðstæðna. Á grundvelli slíkrar greiningar yrði síðar tekin ákvörðun um vistunarstað, fíkniefna- og áfengismeðferð, endurhæfingu, menntun og starfsþjálfun eftir því sem við ætti. Slíkt fyrirkomulag mun að mínum dómi auka mjög möguleika til þess að hafa áhrif á lífsstíl afbrotamanna og leysa einhverja þeirra úr viðjum fíkniefnamisnotkunar.

Ég vil að lokum þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál til umræðu. Ég vil leggja á það ríka áherslu hér að ekki er um neina nýlundu að ræða en hins vegar hefur verið unnið markvisst gegn þessum vanda með betri tækjabúnaði til leitar og bættu skipulagi og auknum möguleikum fanga til meðferðar. Ég hef hins vegar fullan hug á því að bæta hér um enn betur.