Fíkniefnanotkun í fangelsum

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:53:35 (1814)

2000-11-15 15:53:35# 126. lþ. 25.11 fundur 204. mál: #A fíkniefnanotkun í fangelsum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Það er merkilegt að heyra hv. þm. fjalla um fíkniefnaneyslu í fangelsum á Íslandi eins og þar sé um að ræða séríslenskt vandamál sem sýni sérstaka óstjórn í þessum málaflokki. Fíkniefnaneysla er viðvarandi vandamál alls staðar í hinum vestræna heimi og það væri því séríslenskt fyrirbrigði ef ekki kæmi öðru hverju fíkniefnamál upp á Litla-Hrauni. Sem betur fer er ástandið hérna betra en víðast annars staðar og betra nú en verið hefur um langa hríð eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra.

Í fangelsum eru að jafnaði margir fíkinefnaneytendur og menn hafa viðamikla reynslu af fíkniefnasmygli og oft er það einmitt ástæða þess að þeir eru að taka út refsingu fyrir verk sín. Yfirvöld hafa hins vegar náð ágætum árangri í því að stemma stigu við þessu vandamáli og því ber að fagna og vona ég og treysti því raunar að hæstv. dómsmrh. haldi áfram á sömu braut.