Fíkniefnanotkun í fangelsum

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:56:02 (1816)

2000-11-15 15:56:02# 126. lþ. 25.11 fundur 204. mál: #A fíkniefnanotkun í fangelsum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., KF
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:56]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Auðvitað er það áhyggjuefni að fíkniefni komast í hendur þeirra sem afplána dóma í íslenskum fangelsum. En eins og ráðherra hefur skýrt er þetta ekki séríslenskt fyrirbæri og það er ráðherra eins og okkur öllum mikið kappsmál að stemma stigu við þessu.

Annar flötur er þó á þessu máli en það er hvernig hægt er að veita föngum sem vitað er að háðir eru fíkniefnum viðeigandi meðferð, svo og að þeir læknar sem sinna eiga föngum hafi möguleika á að veita þeim rétta meðferð til að þeir nái heilsu. Um þetta hafa Evrópusamtök lækna ályktað og þótt vandinn hér á landi megi teljast lítill miðað við það sem gerist í fjölmennari löndum er hann eigi að síður fyrir hendi.

Mig langar að spyrja ráðherrann hvernig nýju fangelsi sem fyrirhugað er að koma á stofn verði gert kleift að sinna þessu. Hún hefur reynt að reifa það í máli sínu en ég vil fyrst og fremst spyrja um samstarf dómsmrn. við heilbrrh. hvað þetta varðar í nýju fangelsi.