Fíkniefnanotkun í fangelsum

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:58:19 (1818)

2000-11-15 15:58:19# 126. lþ. 25.11 fundur 204. mál: #A fíkniefnanotkun í fangelsum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Mér er ákaflega létt í vasa að ástandið í fangelsum erlendis sé jafnvel verra en hér heima. Ég vil hins vegar þvert á móti gera það að markmiði að við hreinsum okkar íslensku fangelsi. Við búum við þær kjöraðstæður að þau eru lítil og mannfá og við getum notað aðferðina ,,maður á mann`` og það eigum við að gera. Ég bið hv. þm. að fara sér með gát þegar þeir ætla að ljúka upp lofsorði um það ástand sem varir í íslenskum fangelsum.

Ég verð því miður að segja það, herra forseti, að vilji ég trúa því að ástandið á síðustu mánuðum og missirum hafi farið snarbatnandi á Litla-Hrauni get ég það ekki. Upplýsingar mínar eru þvert á móti þær að sjaldan sem fyrr hafi fíkniefnaneysla þar verið almennari, svo ég segi hlutina eins og þeir eru. Ekki rétt, segir hv. þm. á Suðurlandi og veit þá sennilega betur og upplýsir okkur nákvæmar um það.

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera að mála skattann á vegginn en þetta vandamál er viðvarandi. Mér nægir ekki að fá skýrslu frá 1997 um þau efni. Fæstir sem þá voru inni sitja í íslenskum fangelsum núna.

Sannleikurinn er sá að við verðum að taka á þessum málum með séríslenskum hætti og það getum við ekki með því að meina íslenskum föngum að hafa samneyti við aðstandendur sína, ástvini sína. Engum hefur dottið það í hug heldur þarf að taka á málum þannig að innra eftirlit í fangelsum sé virkt frá einum tíma til annars og tekið verði föstum tökum þegar upplýst verður og menn verða varir við að fangar eru undir áhrifum. Það er líka hægt að gera með ötulli leit á gestum og gangandi.

[16:00]

Þetta er með öðrum orðum vandamál sem er hægt að leysa ef viljinn er til staðar. Það verður hins vegar ekki leyst í eitt skipti fyrir öll. Þetta er sífelld og eilíf barátta og ég segi: Byrjum á því að hreinsa þarna. Við sem höfum staðið upp hér erum sammála um það markmið að gera Ísland eiturlyfjalaust árið 2002. Það virkar hreinlega hlálegt þegar menn koma hér og berja sér á brjóst um að það sé allt í lagi að það sé grasserandi fíkniefnaneysla í fangelsum. Virðulegi forseti. Ertu ekki sammála mér um það?