Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 12:23:06 (1849)

2000-11-16 12:23:06# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), HBl
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[12:23]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þessar umræður hafa verið á marga lund gagnlegar. Auðvitað hafa þær fallið að sumu leyti í gamlan farveg og áberandi það ágreiningsmál sem hefur verið uppi um það hvernig staðið skuli að rekstri fyrirtækja sem keppa á hinum frjálsa markaði, hvort um þau fyrirtæki skuli gilda sömu reglur ef ríkið á fyrirtækin eða á meiri hluta í þeim og önnur fyrirtæki á markaðnum.

Ég er þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt sé að sömu lög og sömu reglur gildi um öll fyrirtæki sem eru hlutafélög og ef einhver einstaklingur kaupir hlut í fyrirtæki, sem ríkið á hlut í, geti hann verið öruggur um að um það fyrirtæki gildi þau lög sem gilda almennt um hlutafélög svo að ég taki það sérstaklega sem dæmi. Það er stjórnarskrárvarinn réttur hvers einstaklings að allir skuli vera jafnir fyrir lögum. Ekki nær nokkurri átt að hugsa sér það að einungis með því að ríkið eignast meiri hluta í hlutafélagi skuli rekstrarlegum forsendum fyrirtækisins breytt í einni andrá, öryggi fyrirtækisins verða minna en ella og óhjákvæmilegt að hlutabréfin falli verulega í verði. Það er alveg augljóst mál ef það nær fram að ganga að einstakir alþingismenn geta gert ýmis viðkvæm mál fyrirtækja almennt að umræðuefni, geta upplýst um launakjör einstakra starfsmanna, komið að viðkvæmum samningum og hverju einu og slíkt kallað fram tortryggni um rekstur fyrirtækisins að rétt sé að honum staðið, kallað fram efasemdir um réttmæti fyrirtækisins, slíkt hlýtur að sjálfsögðu að skaða meðeigendur ríkisins. Þess vegna held ég að óhjákvæmilegt sé ef Samfylkingin stendur fast á þeim skoðunum sínum að um fyrirtæki þar sem ríkið á meiri hluta skuli gilda sérstök lög og sérstakar reglur, verði sett sérstök lög um fyrirtæki þar sem ríkið er eigandi þar sem verði nákvæmlega skilgreint hver sé réttur meðeiganda ríkisins í viðkomandi fyrirtæki, hver sé réttur starfsmanna á leynd yfir launakjörum sínum og starfskjörum úr því að hugmyndin er sú að réttur þeirra eigi ekki að vera sá sami eins og í öðrum fyrirtækjum.

Ég hygg raunar að það sé alveg ljóst að þetta mál sé svo vaxið að t.d. stéttarfélög muni láta það til sín taka ef hugmyndin á að vera sú að önnur lög gildi um starfsfólk fyrirtækja sem ríkið eigi en aðra. Að gefnu tilefni hlýt ég að taka þetta fram. Mér finnst ekki hægt að tala um þetta mál í þeim tón að ráðherrar séu að bera fyrir sig hlutafélagalög og upplýsingalög. Alþingi setur lög og eftir þeim ber að fara. Ekki er hægt að tala um það að menn beri fyrir sig lög. Talað er um að menn fari að lögum. Með lögum skal land vort byggja ... (Gripið fram í: ... og ólögum eyða.)... já, og ólögum eyða. Ef Alþingi setur ólög eiga þingmenn að ganga fram í því að breyta þeim lögum en ekki að biðja um að menn brjóti í bága við lögin með athöfnum sínum.

Auðvitað er álitamál hve langt upplýsingalögin eiga að ná. Það hlýtur að vera álitamál en ekki er við Ríkisendurskoðun að sakast ef hún vinnur samkvæmt lögum heldur hljóta alþingismenn þá að beita sér á hinu háa Alþingi.

Ég get alls ekki fallist á það að komið sé í veg fyrir eðlilegt eftirlit þingmanna með framkvæmdarvaldinu eða fyrirtækjunum þó svo unnið sé eftir hlutabréfalögum. Ég hefði ekki flutt frv. um það á Alþingi meðan ég var landbrh. og samgrh. að breyta opinberum stofnunum í hlutafélög ef ég tryði því að með því kæmi ég í veg fyrir það að ráðherrar eða þingmenn gætu haft eðlilegt eftirlit með þeim fyrirtækjum. Ég hlýt að hafna þeirri hugmynd. En hér komum við að pólitísku deiluefni. Er eðlilegt að opinber rekstur á samkeppnismarkaði lúti sömu lögmálum og önnur fyrirtæki? Ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt. Ríkisforsjárflokkar hafa á hinn bóginn talið eðlilegt að sveitarfélög og ríki komi öðruvísi að markaðnum en einkafyrirtækin og verður við svo búið að standa á meðan pólitískur ágreiningur er uppi um þessi efni.

Annað atriði sem hefur komið fram vil ég gera að umtalsefni. Það er spurningin um hvort eðlilegt sé að ráðherrar fari að öllu leyti eftir ábendingum og skoðunum Ríkisendurskoðunar. Ég álít síður en svo að það sé sjálfsagt. Meðan ég var landbrh. lagði Ríkisendurskoðun til að Landgræðslan og Skógrækt ríkisins yrðu sameinuð. Ég var algerlega ósammála þeirri niðurstöðu og tel raunar að það mundi skaða bæði Landgræðsluna og Skógræktina ef til slíkrar sameiningar kæmi. Þar er uppi efnislegur ágreiningur sem kemur venjulegu bókhaldi ekkert við og er af allt öðrum toga en ég hygg að hv. þm. hafi verið að tala um. En eftir sem áður getur verið gagnlegt að glöggva sig á því í hvaða efnum og í hvaða atriðum ráðherra greinir á við Ríkisendurskoðun og að því leyti get ég verið sammála hv. þm.

[12:30]

Ég tók líka eftir því að tveir eða þrír alþingismenn viku sérstaklega að umhverfisendurskoðun. Það vill svo til að meðan ég var í samgrn. hafði það frumkvæði að því að taka svokallað grænt bókhald upp hjá ríkinu og var það látið ná til allra þeirra stofnana sem heyra undir samgrn. Auðvitað var það merkilegt frumkvæði og ég þykist vita að þeirri ákvörðun hafi verið vel fylgt eftir. Embættismenn samgrn. og stofnana þess sýndu því máli mikinn áhuga og eins og hér kemur fram í skýrslunni hefur Ríkisendurskoðun lagt verulega mikla áherslu á að vinna á sviði umhverfisendurskoðunar eins og það er orðað hér, með leyfi hæstv. forseta:

,,Áætlað hafði verið að verja 2.600 tímum vegna vinnu á sviði umhverfisendurskoðunar. Útkoman varð hins vegar um 1.300 tímar. Skýrist það af því að annar starfsmaður þessa sviðs fór í ársfrí`` o.s.frv.

Þessi starfsmaður fór til Brussel til þess að kynna sér þar sérstaklega umhverfisendurskoðun og vinna á því sviði. Síðan mun hann hverfa aftur til stofnunarinnar og er auðvitað mjög mikið gagn að því að hann skuli hafa búið sig þannig undir þau störf sem við vitum að muni nýtast mjög vel.

Ég tek undir þá áherslu sem ríkisendurskoðandi og þingmenn hafa lagt á að efla umhverfisendurskoðun og að fylgja henni vel eftir.

Hér hefur verið að því vikið að skýrslur hafi engan ákveðinn farveg. Vitnað hefur verið til þess að á síðasta ári tók efh.- og viðskn. skýrslu Ríkisendurskoðunar um innheimtusvið tollstjórans í Reykjavík til sérstakrar skoðunar og umfjöllunar. Nefndin kallaði fyrir sig bæði skýrsluhöfunda svo og forsvarsmenn tollstjóraembættisins. Að lokinni athugun sinni gaf nefndin út formlegt álit í formi stuttrar skýrslu.

Ég get tekið undir þau sjónarmið sem ríkisendurskoðandi reifar í formála að starfsskýrslunni, og hefur reyndar margoft áður vikið að, að brýnt sé að koma á fastri skipan í þessu efni. Sú aðferð sem efh.- og viðskn. beitti varðandi skýrsluna um tollstjórann í Reykjavík sýnist koma til álita enda einföld og eðlileg. Ég vil jafnframt geta þess að fjárln. hyggst afgreiða tvær skýrslur Ríkisendurskoðunar með svipuðum hætti.

Ég hef hér í höndum skýrslu um úttekt Ríkisendurskoðunar á innheimtusviði tollstjórans í Reykjavík frá efh.- og viðskn. og tel að hér hafi verið vel að verki staðið ef það svarar þeim spurningum sem hér hafa komið fram og finnst sjálfsagt í framhaldi af þessum umræðum á Alþingi að málið verði rætt sérstaklega og tekið fyrir og þessar ábendingar í forsn.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að hafa um þetta öllu fleiri orð. Sá ágreiningur sem uppi hefur verið um hlutafélög þar sem ríkið er meirihlutaaðili er ekki nýr, hann er margræddur milli mín og þeirra hv. þm. sem hafa tekið hér til máls þó að ég hafi þá verið í öðru hlutverki. En ágreiningurinn stendur eftir sem áður þó að ég sé nú forseti Alþingis, a.m.k. þegar ég stend ekki í þessum ræðustól, herra forseti. Ég tel líka rétt að það komi fram við umræðuna sem ég hef áður sagt, einnig að gefnu tilefni, að ég tel að forseti Alþingis á hverjum tíma hafi heimild til að taka til máls um hvaðeina sem honum sýnist í þinginu, taka pólitíska afstöðu, hafa pólitískar skoðanir og pólitískar áherslur um þau mál sem upp koma og vitna í því sambandi til Jóns Sigurðssonar sem hefur e.t.v. verið lengur forseti en nokkur annar. Ég þori ekki að fullyrða það en mig minnir að hann hafi ekki verið meiningarlaus maður á Alþingi meðan hann sat á forsetastóli.