Skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 12:47:14 (1856)

2000-11-16 12:47:14# 126. lþ. 26.4 fundur 118#B skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999# (munnl. skýrsla), Flm. HBl (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[12:47]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hér eru til umræðu skýrslur umboðsmanns Alþingis fyrir árin 1998 og 1999.

Rétt er að rifja upp að í nóvember 1998 fékk Gaukur Jörundsson leyfi frá starfi umboðsmanns Alþingis og var Tryggvi Gunnarsson settur til að gegna starfinu frá sama tíma allt þar til hann var kjörinn til starfans af Alþingi til fjögurra ára frá 1. jan. sl. Skýrsla fyrir árið 1998 er því rituð af þeim báðum.

Með skýrslu sinni fyrir árið 1998 kveður Gaukur Jörundsson starf umboðsmanns Alþingis. Gaukur var kjörinn fyrsti umboðsmaður Alþingis í desember 1987 og kom það því í hlut hans að móta þetta starf og marka því stöðu. Það verk leysti Gaukur af hendi með þeim hætti að fyrir það ber sérstaklega að þakka á þessum tímamótum. Ég hygg að Alþingi hafi verið mjög heppið og raunar þjóðin að hann skyldi hafa tekið að sér starf umboðsmanns Alþingis á sínum tíma. Jafnframt býð ég velkominn nýjan umboðsmann Alþingis, Tryggva Gunnarsson.

Eins og lýst er í bréfi því til Alþingis sem fylgir skýrslunni fyrir árið 1998 og birt er í upphafi hennar eru þessar ársskýrslur í nokkuð breyttu formi frá því sem áður hefur tíðkast. Á árinu 1999 hófst vinna við heimasíðu fyrir umboðsmann Alþingis. Var ákveðið að þar yrðu m.a. birt álit og aðrar niðurstöður sem umboðsmaður telur rétt að birta ásamt útdrætti í hverju máli fyrir sig, bæði það efni sem birst hefur í áður útgefnum ársskýrslum og ný álit eftir því sem þau liggja fyrir.

Í fyrri ársskýrslum umboðsmanns Alþingis hafa verið birtar að mestu í heild sinni úrlausnir umboðsmanns í málum sem valin hafa verið með tilliti til eðlis þeirra og þýðingar fyrir stjórnvöld auk útdrátta. Umfang þessa efnis hefur farið vaxandi og ársskýrslurnar hafa því verið að stækka að blaðsíðufjölda. Var því ákveðið að nota tækifærið samhliða tilkomu heimasíðunnar og birta almennt í ársskýrslunni aðeins útdrætti eða svonefndar reifanir í þeim málum sem umboðsmaður telur rétt að taka upp í skýrslu sína til Alþingis auk fárra valinna álita sem hafa verulega almenna þýðingu. Álit og annað efni um þau mál sem útdrættirnir fjalla um er síðan hægt að nálgast á heimasíðu umboðsmanns Alþingis sem hefur verið opin frá því í mars á þessu ári.

Vegna þessa og vinnslu á heimasíðunni urðu nokkrar tafir á því að skýrslur þær sem hér er fjallað um yrðu tilbúnar. Það sem mestu skiptir er hins vegar að þetta breytta fyrirkomulag og tilkoma heimasíðunnar á að auðvelda leit að úrlausnum umboðsmanns í einstökum viðfangsefnum og málaflokkum. Ég vil nota tækifærið til að þakka umboðsmanni og starfsfólki hans fyrir það verk sem þarna hefur verið unnið en slíkt aðgengi að úrlausnum umboðsmanns með auðveldum og skjótum hætti er vissulega mikilvægt innlegg í að upplýsa bæði almenning og starfsfólk stjórnsýslunnar um þær réttarreglur sem gilda um málefni stjórnsýslunnar og umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um.

Umboðsmaður Alþingis vekur einmitt í inngangi að skýrslu sinni fyrir árið 1998 máls á því hvort ekki sé fullt tilefni til þess að starfsfólk stjórnsýslunnar eigi í meira mæli en nú er kost á skipulegri fræðslu og endurmenntun um þær lagareglur sem stjórnsýslan starfar eftir. Er það niðurstaða umboðsmanns að aukin fræðsla um reglur stjórnsýsluréttarins og þá einkum málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga sé best til þess fallin að bæta almennt úr þeim atriðum sem hafa orðið tilefni athugasemda af hálfu umboðsmanns. Umboðsmaður víkur þarna að viðfangsefni sem er vitanlega fyrst og fremst verkefni ríkisstjórnar og annarra stjórnvalda en fullt tilefni er til þess að við þingmenn hugum að því hvernig við getum stuðlað að framgangi þessa verkefnis.

Á árinu 1998 voru skráð hjá umboðsmanni Alþingis 288 ný mál en þar af tók umboðsmaður upp að eigin frumkvæði tíu mál. Ný mál á árinu 1999 voru 272 og þar af tók umboðsmaður níu mál upp að eigin frumkvæði. Er þetta nokkur fækkun mála hlutfallslega frá fyrri árum en á árunum 1994--1997 voru skráð árlega yfir 300 ný mál og urðu þau flest árið 1997 eða 360. Þennan fjölda mála á þessum árum má væntanlega að einhverju leyti rekja til þess að stjórnsýslulögin tóku gildi 1. jan. 1994.

Fram kemur í skýrslum umboðsmanns að framangreindar tölur um fjölda mála eiga aðeins við um formlega skráð mál en afar algengt er að fólk komi á skrifstofu umboðsmanns eða hringi og beri þannig upp mál sín og leiti upplýsinga. Leitast starfsfólk embættisins þá við að greiða úr þeim erindum og veita fólki nauðsynlegar leiðbeiningar um hvert skuli leita og hvernig. Í skýrslum umboðsmanns kemur fram að starfsmenn embættisins á árunum 1998 og 1999 hafa að jafnaði verið sex auk umboðsmanns.

Þótt það lúti ekki að starfsemi umboðsmanns á þeim árum sem fyrirliggjandi skýrslur taka til er rétt að láta þess getið hér að í maímánuði á þessu ári var skrifstofa umboðsmanns Alþingis flutt í nýtt húsnæði sem tekið var á leigu að Álftamýri 7 í Reykjavík. Með þessu nýja húsnæði, sem þó verður ekki að fullu tekið í notkun fyrr en á næsta ári, hefur húsnæðisaðstaða fyrir starfsemi umboðsmanns verið bætt til muna.

Í þessum tveim skýrslum umboðsmanns Alþingis er greint frá niðurstöðum af athugun hans á alls 155 málum eða um fjórðungi þeirra mála sem komu til afgreiðslu hjá umboðsmanni á árunum 1998 og 1999. Þau viðfangsefni sem um er fjallað í þessum málum eru margvísleg og ekki er tilefni til þess að ég geri hér að umtalsefni einstök mál. Ég vil þó vekja athygli alþingismanna á þeirri umfjöllun sem fram kemur af hálfu umboðsmanns í þeim köflum skýrslnanna þar sem fjallað er um störf umboðsmanns Alþingis árin 1998 og 1999. Þar víkur umboðsmaður sérstaklega að nokkrum þeirra mála sem fjallað er um í skýrslunum og dregur fram atriði úr þeim sem hann telur hafa almenna þýðingu. Ég minni líka á að í nokkrum þeirra álita sem gerð er grein fyrir í þessum skýrslum koma fram ábendingar af hálfu umboðsmanns Alþingis skv. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, um það sem hann telur vera meinbugi á gildandi lögum. Þetta eru ábendingar til Alþingis og það er því okkar alþingismanna að huga að þeim ef hlutaðeigandi ráðherrar hafa ekki frumkvæði að því að bæta þar úr.

Sem dæmi um slíkar ábendingar má taka fyrstu málin í hvorri skýrslu sem bæði fjalla um almannatryggingar.

Að lokum þakka ég umboðsmanni Alþingis og starfsmönnum hans góð og árangursrík störf og trúnað við almenning.