Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 15:46:34 (1894)

2000-11-16 15:46:34# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég trúi því að Valhöll verði leyst og hún er auðvitað fjarri þessari umræðu. En fyrst umræðan fer inn á svona skemmtilegt plan og farið er að tala um blessuð dýrin, hestinn og hundinn, þá er auðvitað gaman að koma á Þingvöll og sjá þar íslenskan hund með hringað skott og mikilvægt að það fái að vera þar með öflugu mannlífi.

En hv. þm. minntist á hestinn. Ógleymanleg er mér sú stund þegar við stóðum þar, forsrh. landsins, Davíð Oddsson, og frú Clinton, sem nú er orðin þingmaður í Bandaríkjunum, og forsrh. var að sýna henni hæfni og hæfileika íslenska hestsins á fallegu hausti. Auðvitað eigum við að sýna Þingvelli fullan sóma. Þar á að vera skrautreið og hátíð og þess vegna eiga íslenski hundurinn og íslenski hesturinn að koma þar við sögu.