Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 16:58:09 (1911)

2000-11-16 16:58:09# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[16:58]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. þennan nýja skilning og verðum við þá vonandi samherjar á nýjan leik. Af því að það hefur líka komið fram í máli hv. þm. vil ég minna þingheim á frammi fyrir hverju landbrh. stendur í mörgum málum. Hann þarf að berjast fyrir því að íslenskir bændur geti bætt stöðu sína og sóknarfæri.

Það gerðist í þinginu fyrir mörgum árum að ákveðið var að undirgangast GATT-samninga og opna glufur, flytja inn vörur. Það var gengist undir EES, landbrh. varð að láta lesa margar hillur af tilskipunum þannig að innflutningur er hafinn, samkeppnin hefur harðnað og íslenskir bændur þurfa að fylgja tímanum á mörgum sviðum hvað búfénaðinn varðar, leggja áherslu á ræktunarbúskapinn af fullum þunga til að geta staðist þá tíma sem eru fram undan.