Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:06:21 (1917)

2000-11-16 17:06:21# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:06]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir liggur með stærð gripa að ræktunarátak Íslendinga í áratugi með sína kú hefur nú gert það að verkum að stærstu íslensku kýrnar eru alveg sambærilegar þeim norsku þó að meðaltali sé yfir 100 kílóa þyngdarmunur. En stærstu íslensku kýrnar hjá þeim sem lengst hafa náð ná þyngd norsku kýrinnar.

Hvað það varðar að fósturvísar séu ekki áhættulausir, þá er auðvitað ekkert áhættulaust í lífinu. En færustu vísindamenn hafa komist að sinni niðurstöðu og hér á að fara í mjög takmarkaða tilraun í tveimur fjósum ríkisins undir strangasta eftirliti, bera saman íslenska kú, norska kú og blendingskú. Ef til vill fer svo í þeirri harðnandi samkeppni sem íslenskir bændur eru í að þeir geti í gegnum ræktunarátakið sem ég gat um áðan --- 35 milljóna mikið ræktunarátak sem er fyrirhugað með íslensku kúna --- náð þeim árangri.

Auðvitað getur það komið upp að þeir kjósi að sækja sér eiginleika, taka hár úr hala þeirrar norsku og kynbæta sína kú þannig að kannski júgurgerðinni fleygi fram. Tilraunin stendur í átta til tíu ár og ég vona að það verði friðartími. Ég trúi því að ekkert slys hljótist af þessu enda er búið að leyfa þessum sömu aðilum að flytja hér inn --- hvað hétu tegundirnar Aberdeen Angus, (Gripið fram í.) Limousin og Galloway, þannig að það hefur gerst. Þessir gripir nærast á íslensku grasi í íslenskri náttúru og enda svo sem gæðanautakjöt á diskum íslenskra neytenda.

Ráðherra gat ekki staðið gegn tilrauninni eftir að öll gögn voru komin fram og þar sem hægt er að skilja frá litninga hvað sykursýki varðar þá var erfitt annað en að leyfa þessa tilraun undir ströngustu skilyrðum.