Jarðalög

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:26:58 (1922)

2000-11-16 17:26:58# 126. lþ. 26.6 fundur 73. mál: #A jarðalög# (endurskoðun, ráðstöfun jarða) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:26]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ræðu hans. Ég verð því miður að hryggja þingheim með því að heildarendurskoðun á jarðalögum hefur ekki gengið eins hratt og ég ætlaði. Ég vonast þó enn eftir því að sjá frv. eftir áramótin á vorþinginu um þetta mál.

Hv. þm. ræddi ýmislegt í kringum jarðalögin og sérstaklega þetta ákvæði um forkaupsrétt sveitarstjórna, jarðanefndir o.s.frv. Ég get enn sem fyrr tekið undir margt í málflutningi hv. þm. um að þar orki ýmislegt tvímælis í dag. Margt hefur breyst á 25 árum. Landbúnaður hefur breyst og það þarf ekki að reka búskap á hverri einustu jörð til að framleiða mjólk og kjöt. Ég er sannfærður um að margar sveitarstjórnir hafa hálsbrotið sig við að neyta forkaupsréttar og þá kannski komið nærri miklum tilfinningum, eignarréttinum og stjórnarskránni þegar forkaupsréttar er neytt. Sá sem taldi sig vera að kaupa dýrmæta eign til framtíðar undir hugsjónir sínar eða atvinnustarfsemi, þess vegna sumarlönd, verður alltaf fyrir miklu tilfinningalegu sjokki í kringum slíkt. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að endurskoða þessi lög og ég styð margt af því sem fram kom í málflutningi hv. þm.