Jarðalög

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:45:35 (1927)

2000-11-16 17:45:35# 126. lþ. 26.6 fundur 73. mál: #A jarðalög# (endurskoðun, ráðstöfun jarða) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:45]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég hef áður rætt ítarlega um jarðalög. Þannig var að mér varð það einu sinni á að lesa þessi lög og þau eru með ólíkindum. Einhverjir sem er mjög illa við bændur eða vondir við bændur hafa sett þessi lög því að þau skerða eignarrétt bænda umfram aðra Íslendinga. Ég efast um að þessi lög fái staðist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, þvílík er takmörkunin á eignarrétti bænda. Ég tek því undir með hv. 1. flm., Sighvati Björgvinssyni, um þetta mál.

Þessi lög skaða bændur, t.d. forkaupsrétturinn. Það er ekki rétt sem hér var áðan sagt að hann skaði ekki bændur vegna þess að ef einhver gerir tilboð í jörð og má eiga von á því að tilboðið verði eyðilagt með forkaupsrétti þá leggur hann ekki í þá vinnu, þannig að þetta skaðar bændur og einnig þá sem gera tilboð. Og svo er náttúrlega vald jarðanefnda, eins og hér hefur verið nefnt mörgum sinnum, það mikið að það er veruleg skerðing á eignarrétti. Það er með ólíkindum að bændur skuli hafa sýnt þann undirlægjuhátt að láta þessi lög yfir sig ganga og þá niðurlægingu sem felst í þessum lögum.

Ég er hlynntur frelsi einstaklingsins og líka bóndans því hann er jú einstaklingur. Ég er mjög mikið á móti því að þeir geti ekki ráðstafað eignum sínum eins og aðrir landsmenn. Hér voru sett árið 1976, herra forseti, sérlög á bændur og ég vil segja að einhver hefur verið sérdeilis vondur við bændur á þeim tíma.

En það er fleira sem hindrar eignarrétt bænda. Skipulagslög eru í síauknum mæli að hindra það hvernig bændur geta farið með jarðir sínar. Við ræðum þau ekki hér í dag en það má gjarnan koma fram að þar er eignarrétturinn líka takmarkaður.

Ég vil benda á eitt, herra forseti. Nú eru komnir nýir tímar með ljósleiðurum, gagnagrunnum, gagnaflutningum, örbylgjusendum og slíku þannig að nú geta menn farið að búa í sveitum landsins sem ekki stunda búrekstur, t.d. arkitektar, verkfræðingar, læknar og fleiri. Þessi lög hindra það vegna þess að markmið þeirra er að allar jarðir séu í búrekstri. Þannig hefur stöðugt fækkað í sveitum landsins af því að aðrir mega ekki koma inn í sveitirnar en þeir sem stunda búrekstur og það er offramleiðsla í landbúnaði þannig að við sjáum fram á sífellda fækkun í sveitunum með mikilli hættu fyrir félagslíf sveitanna. Þessi lög hindra því það að menn flytji í sveitirnar til að búa þar og stunda aðra starfsemi en búrekstur.

Herra forseti. Ég skora á hæstv. landbrh. að flýta endurskoðun á lögunum sem á að vera fólgin í því að leggja þau af og fara nú að vera góður við bændur.