Tilnefning Eyjabakka sem votlendissvæðis á skrá Ramsar-samningsins

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 18:07:45 (1930)

2000-11-16 18:07:45# 126. lþ. 26.8 fundur 9. mál: #A tilnefning Eyjabakka sem votlendissvæðis á skrá Ramsar-samningsins# þál., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[18:07]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. þess efnis að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að tilnefna Eyjabakka á skrá Ramsar-samningsins yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Flutningsmenn auk mín eru tveir hv. þm., þær Katrín Fjeldsted og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Herra forseti. Ramsar-samningurinn sem Ísland á aðild að hefur það að markmiði að vernda votlendissvæði sem talist geta mikilvæg á alþjóðlegan mælikvarða, einkum með tilliti til fuglalífs. Ísland gerðist aðili að samningnum árið 1978 og skuldbatt sig þar með til að lúta meginákvæðum hans sem eru þau að tilnefna votlendissvæði á lista samningsins, stuðla að skynsamlegri nýtingu votlendissvæða, stofna friðlönd á votlendissvæðum og þjálfa starfsmenn þeirra, auk þess að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um votlendisvernd.

Mikilvægi votlendis út frá alþjóðlegum sjónarhóli er óumdeilt. Votlendi er talið mikilvægt á alþjóðlegan mælikvarða þegar það fóstrar reglulega plöntu- og dýrategundir á viðkvæmu stigi lífsferils eða veitir þeim athvarf við erfið skilyrði, þegar það fóstrar reglulega 20.000 votlendisfugla og þegar það fóstrar reglulega 1% af einstaklingum stofns einnar tegundar eða deilitegundar.

Herra forseti. Það er yfirlýst stefna aðila Ramsar-samningsins að gera átak til að fjölga svæðum á skrá hans. Á aðildarríkjafundi vorið 1999 var samþykkt rammaáætlun um þróun Ramsar-skrárinnar. Í þeirri samþykkt er m.a. sett fram það markmið að árið 2005 verði Ramsar-svæðin orðin 2.000. Það yrði gífurleg fjölgun því í dag eru þau nýlega orðin 1.000. Í þessari samþykkt eru aðildarþjóðirnar einnig hvattar til að nota rammaáætlunina til að þróa kerfisbundnar aðferðir til þess að ákvarða svæði á skrána.

Já, þetta eru skýr fyrirmæli, herra forseti, og göfug markmið. Þess ber líka að geta að á þessum fundi vorið 1999 var einnig samþykkt ályktun þar sem aðildarríkin eru hvött til að styrkja viðleitni sína til þess að allar framkvæmdir og áætlanir sem áhrif geta haft á vistfræðilega eiginleika votlendissvæða á Ramsar-skránni, eða á önnur votlendissvæði viðkomandi lands, verði háð ítarlegu mati á umhverfisáhrifum.

Um mikilvægi votlendis í íslenskri náttúru er hægt að hafa mörg orð. Það mætti t.d. ræða um hversu kappsamir Íslendingar voru á árum áður við að ræsa fram mýrar, þurrka upp votlendissvæði og vinna þau til ræktunar. Það verður ekki gert hér enda hefur hin seinni ár verið meira lagt upp úr því að endurheimta það votlendi sem einu sinni var. Þær tilraunir benda til að slíkt sé framkvæmanlegt í einhverjum mæli en ekki liggja fyrir nægar rannsóknir til að hægt sé að fullyrða nokkuð um möguleika okkar í þeim efnum. Hitt er ekki heldur ljóst hversu mikill hluti votlendis í náttúru Íslands hefur verið ræstur fram, en talið er að a.m.k. helmingur votlendis í byggð hafi beðið tjón af framræslu.

Herra forseti. Til að uppfylla ákvæði Ramsar-samningsins hefur Ísland tilnefnt þrjú svæði á skrá hans: Mývatn og Laxársvæðið voru tilnefnd 1978, Þjórsárver voru tilnefnd inn á skrána 1990 og Grunnafjörður í Borgarfirði var tilnefndur 1996. Í fskj. með þáltill. þessari kemur nánar fram hvað íslensk stjórnvöld hafa gert til að standa við skuldbindingar sínar. Þar er um að ræða I. kafla úr skýrslu hæstv. umhvrh. um framkvæmd alþjóðlegra samninga á sviði náttúruverndar sem birt var á þskj. 1376 á síðasta þingi.

Við Ramsar-samninginn starfar eftirlitsnefnd sem hefur það hlutverk að kanna hvernig ákvæðum samningsins er framfylgt í þeim ríkjum sem hafa tilnefnt svæði inn á skrá hans. Það verður að segjast eins og er að Ísland hefur ekki alltaf verið til fyrirmyndar að áliti eftirlitsnefndarinnar. Þannig hafa bæði Mývatn og Þjórsárver verið sett á sérstaka skrá yfir svæði sem talin eru í hættu vegna nýtingar sem ekki getur talist sjálfbær, svokallaða Montreux-skrá. Þau hafa að vísu verið tekin af henni aftur vegna yfirlýsinga íslenskra stjórnvalda frá 1993 en eftirlitsnefndin mun hafa á þeim sérstakar gætur.

Eitt af mikilvægum ákvæðum samningsins hefur ekki verið uppfyllt af Íslands hálfu en það er kvöð sú sem hvílir á aðildarríkjunum að gera skrá um votlendissvæði innan sinnar lögsögu sem talist geta mikilvæg á alþjóðlega vísu. Komið hefur fram í máli hæstv. umhvrh. að skrá af þessu tagi komi til með að heyra undir gerð náttúruverndaráætlunar sem er í undirbúningi samkvæmt lögum um náttúruvernd og mun þar með væntanlega verða lögð fyrir Alþingi eigi síðar en árið 2002. Þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra ber að sjálfsögðu að fagna en jafnframt verður að geta þess að frv. til fjárlaga ársins 2001 gerir ekki beint sérlega vel við þá náttúruverndaráætlun og ekki var rausnin heldur of mikil af hendi fjárveitingavaldsins til verkefnisins á yfirstandandi ári en vonandi verður hægt að bæta úr.

Herra forseti. Af þessum inngangi má ljóst vera að skyldur íslenskra stjórnvalda gagnvart Ramsar-samningnum eru miklar og ekki allar uppfylltar. Því er full þörf á því fyrir íslensk stjórnvöld að efla meðvitund um mikilvæg votlendissvæði og er þá komið að kjarna þessarar tillögu.

Herra forseti. Með nokkrum sanni má segja að votlendissvæði sem kjörið er á Ramsar-skrána, Eyjabakkar, hafi hreinlega stokkið upp í fangið á íslenskum stjórnvöldum fyrr á árinu þegar horfið var frá hugmyndum um Fljótsdalsvirkjun með miðlunarlóni á Eyjabökkum. Eyjabakkar uppfylla öll skilyrði þess að vera tilnefndir sem Ramsar-svæði. Svæðið hefur verið á náttúruminjaskrá síðan 1978 og unnið hefur verið að friðlýsingu þess síðan 1991.

Herra forseti. Í allri þeirri vinnu sem fram fór við þáltill. iðnrh. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun á 125. löggjafarþingi var mikilvægi Eyjabakkasvæðisins staðfest af ótal vísinda- og fræðimönnum. Óhætt er að fullyrða að svæðið sé einstakt í náttúru Íslands því hvergi annars staðar er að finna samfellt gróðurlendi frá sjó að jökli sem liggur í 650 m hæð yfir sjávarmáli. Einu staðirnir sem mögulega er hægt að bera saman við Eyjabakka eru Þjórsárver og Hvítanes. Hvað fuglalífið varðar þá verpa 13 fuglategundir á svæðinu, sem er mikið miðað við önnur afmörkuð svæði á hálendi Íslands, auk þess sem talið er að 4--5% af íslensk/grænlenska heiðagæsastofninum og 2% af íslenska álftastofninum nýti sér svæðið. Þá munu 50--70% geldra heiðagæsa fella fjaðrir á Eyjabökkum. Þessar staðreyndir sýna svo ekki verður um villst að hér er um mikilvægt svæði að ræða sem að mati flutningsmanna er sjálfsagt að fái sess á Ramsar-skránni yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði.

Herra forseti. Snemma í haust gaf ríkisstjórn Íslands út þá ánægjulegu tilkynningu að að hún hygðist stofna Vatnajökulsþjóðgarð árið 2002 á alþjóðlegu ári fjalla. Þessu ber að fagna og ég þori að fullyrða að hugmyndin á mikinn hljómgrunn hér á Alþingi. En þess ber líka að geta að sú umræða sem fram fer um þá hugmynd er frjó og í henni ber þegar talsvert á þörfinni fyrir að ræða stærð þess svæðis sem færi undir mögulegan þjóðgarð. Það verður að segjast eins og er að allt svæðið umhverfis jökulinn er þess eðlis að mikilvægt er að það sé skoðað og skilgreint. Það má því ljóst vera af núgildandi náttúruminjaskrá að þarna leynast gífurleg verðmæti.

[18:15]

Hinn 29. september sl. var haldin ráðstefna á Kirkjubæjarklaustri sem fjallaði um Vatnajökulsþjóðgarð. Á ráðstefnu þeirri var það mál manna að Vatnajökull og svæðið umhverfis hann hefði alþjóðlegt verndargildi og því afar mikilvægt að efla náttúruvernd á svæðinu.

Herra forseti. Tilnefning Eyjabakka á lista Ramsar-samningsins um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði væri veigamikið skref í þá átt.

Að svo mæltu legg ég til að tillögunni verði að lokinni umræðunni vísað til hv. umhvn.