Tilnefning Eyjabakka sem votlendissvæðis á skrá Ramsar-samningsins

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 18:16:00 (1931)

2000-11-16 18:16:00# 126. lþ. 26.8 fundur 9. mál: #A tilnefning Eyjabakka sem votlendissvæðis á skrá Ramsar-samningsins# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[18:16]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Á 125. löggjafarþingi lagði hæstv. umhvrh. fram skýrslu um framkvæmd alþjóðlegra samninga á sviði náttúruverndar samkvæmt beiðni minni og fleiri þingmanna Samfylkingarinnar. Þar er m.a. greint frá skyldum Íslands vegna Ramsar-samþykktarinnar um verndun votlendis. Varla þarf að tíunda fyrir hv. þm. mikilvægi Eyjabakkanna með tilliti til votlendis, fjölbreytni í gróðurfari og dýralífs. Hv. þm. er líklega í fersku minni umræðan um náttúruverndargildi Eyjabakka frá liðnum vetri.

Eins og fram kemur í greinargerð tillögunnar uppfylla Eyjabakkar öll skilyrði þess að hljóta tilnefningu sem Ramsar-svæði. Með slíkri samþykkt legði Alþingi sitt af mörkum til verndunar votlendissvæða sem teljast einstök í alþjóðlegum samanburði.

Herra forseti. Ekki er langt síðan flestir landsmenn gerðu sér grein fyrir þeim náttúruauðæfum sem búa í votlendinu en verndun þess miðar beinlínis að því að viðhalda sem mestum líffræðilegum fjölbreytilega á jarðarkringlunni. Votlendi hefur ákaflega margháttuðu hlutverki að gegna í náttúrunni. Það býr alla jafna yfir mjög mikilli framleiðni og raunar eru gróskumestu votlendissvæðin með hærri framleiðni en þekkist í nokkru öðru vistkerfi. Oft eru votlendissvæði stakar gróðurvinjar í eyðimörkum, eða á gróðursnauðum hálendissvæðum, eins og finna má á Íslandi og gegna þau þar mikilvægu hlutverki fræbanka. Þegar aðstæður verða hagstæðari og umhverfi breytist á gróðurvana landi í grennd við slíkar vinjar, t.d. vegna breytinga á lofthita eða minnkandi beitarálags, verða fræbankar votlendisvinja ómetanlegir við uppgræðslu þess.

Á síðasta löggjafarþingi var lögð fram tillaga frá Samfylkingunni um vernd votlendis þar sem lagt er til að Alþingi feli umhvrh. að láta gera vistfræðilega úttekt á skráningu votlendis hér á landi með það að markmiði að leggja fram ítarlega áætlun sem miði að vernd þess votlendis sem er í hættu. Tillagan sem er í fullu samræmi við Ramsar-samþykktina verður endurflutt á yfirstandandi þingi. Enn skortir útfærða stefnu stjórnvalda um vernd og endurheimt votlendis en með þeirri tillögu sem mælt er fyrir í dag og fleiri sem fylgja munu í kjölfarið er von til þess að látið verði fyrir fullt og fast af hernaðinum gegn landinu eins og Nóbelsskáldið orðaði það svo eftirminnilega fyrir 30 árum.