Tilnefning Eyjabakka sem votlendissvæðis á skrá Ramsar-samningsins

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 18:39:41 (1937)

2000-11-16 18:39:41# 126. lþ. 26.8 fundur 9. mál: #A tilnefning Eyjabakka sem votlendissvæðis á skrá Ramsar-samningsins# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér eru það svolítil vonbrigði að heyra að hæstv. ráðherra telur það ekki vera sitt hlutverk að ganga í þetta mál. Ég tel að það sé orðið alveg ljóst að ekki verði af virkjunarframkvæmdum þarna og þess vegna gætu menn svo sem alveg gengið til verka strax. En mér sýnist að hæstv. ráðherra ætli sér að koma í veg fyrir, þar með, að þetta mál nái fram að ganga sem hér er til umræðu. Það er náttúrlega ekki mjög góður bragur á því. Ég geri ráð fyrir að það sé mikill vilji fyrir því að þetta mál nái fram að ganga og það muni koma fram í hv. umhvn. Mér sýnist það á þeim undirtektum sem hafa verið hér í dag og reyndar á vitneskju minni um afstöðu annarra þannig að ég beini því til hæstv. ráðherra hvort ekki sé rétt að hugsa málið vandlega og ræða það a.m.k. við Landsvirkjun hvort hún, til þess að efla frið við þjóðina, er ekki tilbúin að endurskoða þessa afstöðu sína.