Atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:40:13 (1955)

2000-11-20 15:40:13# 126. lþ. 27.94 fundur 126#B atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:40]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Störfum fækkar í sjávarútvegi og landbúnaði. Það er staðreynd sem hagtölur sýna okkur. Tæknivæðing og hagræðing hefur leitt til þess. Störfum fjölgar í hátæknifyrirtækjum, í hugbúnaðargerð, í líftækni og fjarskiptum, þ.e. hinu nýja hagkerfi.

Verkefni okkar hlýtur að vera að skapa það umhverfi á landsbyggðinni að þar geti menn tekið þátt í hinu nýja hagkerfi. Það hefur m.a. verið gert með því að stofna framtakssjóði sem eiga að sinna verkefnum á sviði nýsköpunar í þeim greinum sem eru uppistaðan í nýja hagkerfinu. Þingsályktun um stefnu í byggðamálum sem samþykkt var á Alþingi í mars 1999 tekur á þessu atriði. Til að tryggja nauðsynlegt eigið fé í nýsköpunarverkefnum hefur verið komið á fót eignarhaldsfélögum í öllum landshlutum og framlag ríkissjóðs til þeirra er samtals 300 millj. kr. á ári. Framtakssjóður Nýsköpunarsjóðs hefur til ráðstöfunar 1 milljarð kr. og er honum ætlað að stuðla að nýsköpun í atvinnuuppbyggingu með áherslu á landsbyggðina, einkum á sviði upplýsinga- og hátækni.

Hafið er átak í þá átt að flytja verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og annarra opinberra fyrirtækja út á landsbyggðina til fjarvinnslu. Það hefur gengið heldur hægar en mörg okkar hefðu óskað. Það kom í ljós í skýrslunni Nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni sem kom út síðastliðið haust, að miklir möguleikar eru til ef vilji opinberra stofnana er fyrir hendi. Upplýsingar liggja fyrir um að í ráðuneytum er víða verið að vinna að þessum verkefnatilflutningum af miklu kappi.

Ferðaþjónusta er í örum vexti um þessar mundir. Margt hefur verið gert til að efla þá atvinnugrein út um land. En betur má ef duga skal. Og víða liggur fyrir að leggja þarf í fjárfestingar til að hægt sé að sinna móttöku ferðamanna. Fjármagn til slíkrar grunnfjárfestingar liggur ekki á lausu. Nauðsynlegt er að huga að því hvernig beri best að leysa úr því máli.

Hæstv. forseti. Við vitum að atvinnuástand er gott á landinu í heild. Það er hins vegar augljóst að bregðast verður við þegar atvinnuhættir breytast eins ört og við verðum vitni að um þessar mundir.