Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 18:04:39 (1983)

2000-11-20 18:04:39# 126. lþ. 27.6 fundur 27. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[18:04]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hér er til umræðu þingmannafrumvarp sem lagt var fram í haust og snýr eingöngu að breyttri meðferð á söluhagnaði hlutabréfa í skattalegu tilliti. Ég hef hugsað mér að tala hér eingöngu um það mál en ekki ýmis önnur atriði eins og hv. frsm. gerði. Ég mun síðan væntanlega hér á eftir mæla fyrir stjfrv. sem að hluta til nær yfir sama efnisatriðið en einnig fjölmörg önnur skattaleg atriði.

Það má segja að menn hafi gefið meðferð söluhagnaðar af hlutabréfum heilmikinn gaum á þessu hausti, bæði hér á Alþingi og annars staðar. Það var borin fram fsp. um þetta efni hér í haust. Það gerði hv. þm. Ögmundur Jónasson. Samfylkingin flytur þetta frv. sem nú er á dagskrá og svo höfum við í ríkisstjórninni sammælst um frv. sem hér verður mælt fyrir á eftir.

Hver er nú ástæðan fyrir öllu þessu? Hún er væntanlega sú að komið hefur í ljós að lagabreytingar sem gerðar voru hér 1996 hafa ekki að öllu leyti skilað því sem vænst var, hafa ekki þjónað tilgangi sínum að öllu leyti. Þá var farið út í það, þegar fjármagnstekjuskattur var upp tekinn, að undanþiggja söluhagnað af hlutabréfum hinni almennu reglu um meðferð á fjármagnstekjuskatti og láta slíkan söluhagnað bera fullan tekjuskatt einstaklinga eða eftir atvikum lögaðila en þó þannig að fresta mætti skattlagningunni um tveggja ára skeið, svo fremi að menn fjárfestu í öðrum hlutabréfum.

Ásamt öðru hefur þetta væntanlega haft í för með sér það að menn eru nú í ríkari mæli en áður farnir að flytja fjármagn sitt til útlanda, en það er m.a. vegna þess opnað hefur verið fyrir fjármagnsflutninga milli landa. Vel má vera að einhverjir hefðu kosið að flytja sitt fé úr landi af öðrum ástæðum en þessum eftir að sú breyting var gerð, þannig að ekki er hægt að hengja alla flutninga á fjármagni til útlanda á þessa einu lagabreytingu frá 1996. Eigi að síður er ljóst að sú breyting hefur frekar ýtt undir það að menn flytji sitt fé milli landa, eins og hv. frsm. rakti að mínum dómi ágætlega áðan.

Við skulum hins vegar hafa það í huga að um margra áratuga skeið var það þannig á hlutabréfamarkaði á Íslandi að lítil sem engin opinber viðskipti voru með hlutabréf. Það var enginn formlegur hlutabréfamarkaður til og lítil viðskipti með slík bréf, fyrirtæki voru gjarnan rekin sem fjölskyldufyrirtæki þó í hlutafélagsformi væri og bréf sjaldan á markaði og skiptu sjaldan um hendur nema við kynslóðaskipti, við uppgjör dánarbúa o.s.frv.

Algjör grundvallarbreyting hefur orðið í þessu efni á undanförnum árum. Hér er kominn virkur hlutabréfamarkaður og búið að gjörbreyta öllu umhverfi á því sviði. Þessi skattalagabreyting árið 1996 hafði það auðvitað í för með sér að fólk var ekki eins tregt og áður var til að innleysa söluhagnað á hlutabréfum. Með öðrum orðum: Fólk leitaði eftir því að selja bréf ef það taldi það hagkvæmt af öðrum ástæðum, jafnvel þó af þeim yrði söluhagnaður sem það gat síðan frestað skattgreiðslum af með þeim hætti sem hér er um að ræða.

Ég tel að það hafi í mörgum og flestum tilfellum verið mjög eðlileg þróun og jákvæð sem vakti úr dvala starfsemi sem þekkist í öllum siðuðum þjóðfélögum, að það séu einhver viðskipti á markaði með fyrirtæki og hlutabréf. Til þess var áður miklu minni tilhneiging hér á Íslandi. Það var vissulega mjög jákvætt. Þau hliðaráhrif sem birst hafa í tilflutningi fjármagns til útlanda eru hins vegar ekki það sem menn sáu fyrir. Það má halda því fram að þau séu neikvæð. Þau hafa haft ýmisleg áhrif á aðra þætti eins og þingmaðurinn nefndi hér áðan. Ég tel að menn eigi að gefa því gaum hvernig eigi að bregðast við þeirri ófyrirséðu breytingu sem varð.

Samfylkingin leggur til í frv. sínu að aftur verði horfið til gamla fyrirkomulagsins, að menn borgi fullan tekjuskatt af slíkum söluhagnaði og þetta verði sem sagt einu fjármagnstekjurnar sem ekki beri fjármagnstekjuskatt. Ég tel að þetta mundi hafa þau áhrif að viðskipti með hlutabréf mundu fara í gamla farið. Þau mundu minnka mikið, hverfa í mörgum fyrirtækjum og þetta mundi líka ýta enn frekar undir flótta úr landi ef menn fyndu einhverja smugu til þess. Ég tel að þetta frv., eins og það er úr garði gert, gangi gegn yfirlýstum tilgangi sínum. Þá er nú ekki margt hægt að gera, ef menn vilja breyta núverandi fyrirkomulagi, annað en að horfast í augu við þá staðreynd að það er eðlilegt að meðhöndla söluhagnaðartekjur sem fjármagnstekjur og sætta sig við það.

Ég nefndi það í umræðunni um fsp. frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrr í haust, og hv. þm. vitnaði til þess, að eingöngu nokkrir tugir einstaklinga hafa talið fram söluhagnað af hlutabréfum, t.d. á síðasta ári --- hvort það var 41 einstaklingur sem það gerði. En allir hinir sem hafa innleyst söluhagnað af hlutabréfum hafa frestað skattgreiðslunni. Allir hinir, já. Hve margir skyldu það vera? Ég veit það ekki fyrir víst, en það var upplýst á þskj. í haust, í tilefni af annarri fyrirspurn, að eigendur hlutabréfa eða þeir sem hafa nýtt sér skattfrádráttinn í tengslum við kaup á hlutabréfum eru hvorki fleiri né færri en 80.000 manns, þ.e. nálægt því að vera þriðjungur allra skattgreiðenda, sjálfsagt stærra hlutfall þeirra sem eru á virkum atvinnualdri og aflar sér tekna. Mun stærra hlutfall, ef maður dregur frá unglinga og eldra fólk sem ekki er á vinnumarkaði.

Við sjáum þannig í hendi okkar að það eru örfáir einstaklingar sem ekki hafa frestað skattgreiðslunni en allir hinir, þúsundir ef ekki tugþúsundir manna, hafa hagnýtt sér þennan frádrátt. Það fólk er ekki einhverjir ljótir, svartir fjármagnseigendur, eins og stundum er nú talað um þann hóp hér í ræðustóli af þingmönnum eins og hv. þm. Ögmundi Jónassyni, hina illu fjármagnseigendur, fólkið sem á hlutabréfin í landinu. Þar er þá ekki einhver ljót minnihlutaklíka á ferð ef það liggur við að vera helmingi stærri hópur en allir félagsmenn í Alþýðusambandinu, kannski álíka stór hópur og allir sem eru í Alþýðusambandinu. Þannig er ekki um það að ræða, enda stendur sá málflutningur á brauðfótum að mínum dómi.

Leiðin til þess að tryggja að ríkið fái einhverjar skatttekjur af þessu er að horfast í augu við þá staðreynd að hér er um að ræða venjulegar fjármagnstekjur. Langfæstir munu setja það fyrir sig, tel ég, að borga 10% fjármagnstekjuskatt af slíkum hagnaði. Fólk mun miklu frekar gera það en fara í einhverjar æfingar við að koma peningum sínum til útlanda, hirða þaðan arð og borga af því alls kyns kostnað sem því fylgir. Það mun sem sagt leysa úr læðingi skatttekjur sem ríkissjóður er að missa af í dag með því að horfast ekki í augu við þá staðreynd að þetta eru fjármagnstekjur eins og hvað annað. Við eigum bara að gera það, við skulum bara horfast í augu við það. Það voru menn ekki tilbúnir til að gera árið 1996 og þess vegna var lagaákvæðið þannig úr garði gert sem raun ber vitni.

[18:15]

Ég tel sem sagt að þetta frv. sem Samfylkingin hefur flutt hér sé reyndar mjög í anda Samfylkingarinnar en að það missi marks og það muni hafa þveröfug áhrif á það sem því er ætlað að gera, það muni draga úr viðskiptum með hlutabréf og draga muni úr tekjum ríkissjóðs af viðskiptum með hlutabréf og færa þennan markað langt aftur í tímann, í stað þess að horfa fram á veginn. Við búum í alþjóðlegu umhverfi, við getum ekki meinað fólki að gera fjárhagslegar ráðstafanir fyrir sjálft sig, hvort heldur það er innan lands eða utan, eftir því sem það sjálft telur hagkvæmast. Við verðum hins vegar að búa skattkerfi okkar þannig úr garði að það standist samkeppni utan lands frá.

Þetta er einn liður í því. Það er margt fleira sem þarf að gera, hlutir sem varða eignarskatta og stimpilgjöld og margt, margt fleira sem ekki er ástæða til að tíunda í þessari umræðu. En þetta vildi ég láta koma fram af minni hálfu gagnvart frv. Samfylkingarinnar. Ég mun síðan fylgja úr hlaði mínu eigin frv., vonandi á eftir.