Verðbréfaviðskipti

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 14:16:54 (2009)

2000-11-21 14:16:54# 126. lþ. 28.5 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti sem er 233. mál þingsins á þskj. 251.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum verðbréfaviðskiptalaga um útboð verðbréfa og innherjaviðskipti. Á síðasta þingi var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Í frumvarpinu voru meðal annars lagðar til breytingar á 20. gr. laganna um almennt útboð verðbréfa. Þar var lagt til að almennt útboð verðbréfa skyldi fara fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja eða annarra aðila sem til þess hefðu heimild í lögum en að öðru leyti skyldi kveðið á um útboð verðbréfa í reglugerð. Alþingi taldi óeðlilegt að ráðherra fengi svo víðtæka heimild til reglugerðarsetningar og beindi því þeim tilmælum til viðskiptaráðherra að hann hlutaðist til um að samið yrði frumvarp sem fæli í sér helstu efnisreglur um útboð verðbréfa og innherjaviðskipti. Viðskiptaráðherra skipaði í framhaldinu tvær nefndir sem gera skyldu tillögu um breytingu á ákvæðum verðbréfaviðskiptalaga um útboð verðbréfa og innherjaviðskipti.

Það frv. sem hér er til umræðu er afrakstur þessara tveggja nefnda.

Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frv. eru helstu breytingar sem það felur í sér eftirfarandi varðandi útboð verðbréfa:

1. Stuðlað er að því að verðbréf sem seld hafa verið á grundvelli undanþágu frá almennu útboði séu ekki seld til almennings á eftirmarkaði.

2. Sala eða milliganga fyrirtækis í verðbréfaþjónustu á verðbréfum til annarra en fagfjárfesta, sem ekki fellur undir reglur um almennt útboð, er háð því að lagt hafi verið mat á faglega þekkingu, fjárhag og reynslu viðskiptavinar.

3. Fjármálaeftirlitið skal hafa umsjón með athugun á útboðslýsingum. Nú er athugun á útboðslýsingum hjá Verðbréfaþingi Íslands hf. Kauphallir skulu þó áfram annast athugun á skráningarlýsingum samkvæmt lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

4. Undanþágur frá almennu útboði eru settar inn í verðbréfaviðskiptalögin. Undanþágur þessar eru nú í reglugerð nr. 505/1993. Bætt er við þeirri undanþágu að séu verðbréf einungis boðin fagfjárfestum, þ.e. þeim sem hafa faglega þekkingu og reynslu til að meta fjárfestingarkosti með tilliti til áhættu, þurfi ekki að gefa út útboðslýsingu.

5. Ráðherra er skylt að kveða á um viðvarandi upplýsingaskyldu og skilgreiningu á fagfjárfestum í reglugerð en slík ákvæði eru ekki til staðar í gildandi lögum og reglum um útboð verðbréfa. Telja verður óeðlilegt að engin ákvæði gildi um viðvarandi upplýsingaskyldu þeirra félaga sem farið hafa í almennt útboð án skráningar í kauphöll og ganga kaupum og sölum á almennum markaði. Skilgreining á fagfjárfestum er til að kveða skýrar á um hvaða fjárfestar geti keypt bréf í lokuðu útboði á grunni undanþágu frá almennu útboði.

Og varðandi innherjaviðskipti:

1. Hugtakið innherji er nú skilgreint sérstaklega í lögunum og greint á milli einstakra flokka innherja sem ekki hefur verið gert í lögum fram að þessu.

2. Gert er ráð fyrir að ákvæði laganna um innherjaviðskipti taki einungis til viðskipta með skráð verðbréf.

3. Gert er ráð fyrir sérstakri rannsóknarskyldu innherja í tengslum við viðskipti með verðbréf.

4. Komið verður á fót sérstakri innherjaskrá og verða upplýsingar úr henni opinberar að einhverju leyti.

5. Skerpt er á kröfum gagnvart útgefendum verðbréfa, stjórnvöldum og öðrum aðilum sem fá reglulega trúnaðarupplýsingar í starfsemi sinni varðandi setningu reglna um meðferð trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja.

Frumvarpi þessu er ætlað að einfalda og skýra reglur um almennt útboð og jafnframt að gera meiri kröfur til fyrirtækja í verðbréfaþjónustu en tíðkast hefur. Markmið með nýjum innherjareglum er að auka aðhald með innherjum og kröfur til þeirra um að þeir gæti öðrum fremur að stöðu sinni í verðbréfaviðskiptum hverju sinni. Breytingarnar eru einnig til þess fallnar að auka traust á fjármálamarkaði og trúverðugleika markaðarins almennt. Í viðaukum með frv. er að finna ítarlegar skýrslur nefndanna um útboð verðbréfa og innherjaviðskipti.

Hæstv. forseti. Verðbréfaviðskiptalögin eru í sífelldri endurskoðun sakir þess hve markaður með verðbréf þróast hratt. Á þessu ári hafa verið gerðar umfangsmiklar breytingar á lögunum sem lúta að aðskilnaði einstakra starfssviða að Kínamúrunum margfrægu, menntunarkröfum til starfsmanna fjármálafyrirtækja og afleiðussamningum. Hér er síðan til umræðu frv. er lýtur að útboðum verðbréfa og innherjaviðskiptum.

En þar með lýkur ekki þróun verðbréfaviðskiptalaganna. Fjármagnsmarkaðurinn er sífellt að verða alþjóðlegri og því verðum við að afnema þær tæknilegu hindranir sem geta verið í vegi frekari alþjóðavæðingar íslensks fjármagnsmarkaðar. Ég vil hér nefna eitt dæmi:

Í verðbréfaviðskiptalögum er kveðið á um að skrá skuli hvert verðbréf á nafn eiganda. Safnskráning verðbréfa í einn pott, t.d. í vörslu verðbréfafyrirtækja er því ekki heimil. Þetta getur verið bagalegt sér í lagi fyrir erlenda fjárfesta sem vilja fjárfesta í íslensku atvinnulífi með ávöxtun í huga en ekki áhrif. Þeir mundu væntanlega flestir kjósa að verðbréfafyrirtækin sæju um eign sína og samskipti við viðkomandi félag en væru ekki sjálfir skráðir í hluthafaskrá þess.

Þetta er ekki hægt í dag. Ég tel að hér þurfi að gera bragarbót á en ekki náðist að leggja tillögur þessa efnis fyrir þingið í þessu frv. á þeim stutta tíma sem ráðuneytið hafði til ráðstöfunar við smíði frv. Hins vegar er unnið að tillögugerð um breytingar á þessu fyrirkomulagi í ráðuneytinu og hvet ég efh.- og viðskn. til þess að taka málið upp á meðan frv. er þar til meðferðar.

Hæstv. forseti. Ég mæli með því að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.