Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 16:26:55 (2029)

2000-11-21 16:26:55# 126. lþ. 28.7 fundur 160. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[16:26]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 162. Það er 160. mál, frv. til laga um ábyrgðarmenn. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Pétur H. Blöndal, Einar Oddur Kristjánsson, Kristinn H. Gunnarsson, Jón Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson og Sverrir Hermannsson.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er nú flutt í fjórða sinn en með nokkrum breytingum. Veigamest þeirra breytinga er að í 9. gr. frumvarpsins er kveðið á um að heimilt sé að gera fjárnám í fasteign sem ábyrgðarmaður á og býr í hafi hann haft persónulegan hag af lánveitingunni.

Virðulegi forseti. Í núgildandi lögum er hvergi að finna almennar reglur um ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga eða hvernig staðið skuli að slíkri samningsgerð. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa því að mestu mótað eigin reglur um samskipti sín og ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga. Í opinberri skýrslu sem kom út fyrir nokkrum árum, en nýrri upplýsingar liggja ekki á lausu, kemur fram að gera megi ráð fyrir að um 90.000 einstaklingar yfir 18 ára aldri séu í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum þriðja aðila. Það eru um 47% allra Íslendinga á þessum aldri. Ekki hefur tekist að finna nýrri upplýsingar um stöðu þessara mála hér en fátt bendir til þess að verulegar breytingar hafi orðið á þessu sviði þrátt fyrir vilja fjármálastofnana til annars. Því bendir flest til þess að ábyrgðarskuldbindingar séu mun algengari hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum eða í Vestur-Evrópu. Þannig kemur fram í áðurnefndri skýrslu viðskiptaráðuneytisins, Ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga, að höfundur norrænnar skýrslu um ábyrgðarveitingar telur að á 10% heimila á Norðurlöndum megi finna einstaklinga sem eru í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum annarra. Ef aðeins er tekið mið af upplýsingum sem fram koma í skýrslunni er ekki óvarlegt að ætla að á 60--80% heimila hér á landi megi finna einstaklinga yfir 18 ára aldri sem eru í persónulegri ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum annarra. Því má fullyrða að þróun ábyrgðarskuldbindinga hér á landi hefur orðið allt önnur en annars staðar á Norðurlöndum.

Í þessu samhengi er vert að nefna að nú nýverið bönnuðu Norðmenn svokallaðar sjálfskuldarábyrgðir þannig að þeir hafa gengið svo langt að banna sjálfskuldarábyrgðir og gerðu það nú nýverið í maí sl. ef ég man það rétt.

[16:30]

Markmiðið með framlagningu þessa frumvarps er að lögfesta almennar reglur um stofnun, form og efni ábyrgðarsamninga, samskipti ábyrgðarmanna og kröfuhafa, upplýsingaskyldu kröfuhafa og ógildingarástæður, auk samskiptareglna milli ábyrgðarmanna og lánveitanda. Reglunum er því ætlað að gilda um samninga þar sem einstaklingar takast á hendur persónulega ábyrgð eða ábyrgð fyrir hönd einkafirma síns og aðalskylda skuldara er greiðsla peninga.

Frumvarpið byggist að miklu leyti á sjónarmiðum um neytendavernd. Nauðsyn hennar birtist m.a. í aðstöðumun sem jafnan er á stöðu ábyrgðarmanna annars vegar og viðsemjenda þeirra hins vegar. Í flestum tilvikum er öll sérfræðiþekking í lánsviðskiptum hjá lánveitanda, auk þess sem ábyrgðarmaður sjálfur hefur sjaldnast nokkurn hag af samningnum. Þá er þess að geta að ástæður einstaklinga fyrir því að gangast í ábyrgð eru oftar en ekki krafa lánastofnana eða annarra stórfyrirtækja um auknar tryggingar, auk þrýstings frá fjölskyldumeðlimum, vinum og kunningjum sem erfitt getur verið að standast þar sem afkoma og afdrif einstaklinga geta verið undir því komin að umbeðin fyrirgreiðsla fáist.

Hér á landi virðist hafa verið lögð ríkari áhersla á að þriðji maður ábyrgist efndir aðalskuldara en þekkist í nágrannalöndunum. Minni áhersla virðist hafa verið lögð á að lánveitandi láti fara fram faglegt mat á greiðslugetu lántakenda eins og skýrslan sem vitnað var til ber með sér. Lánastofnanir virðast hafa lagt mun meiri áherslu á að reyna þess í stað að tryggja sér ábyrgð þriðja manns í því skyni að takmarka áhættu sína. Þessu er frumvarpinu, verði það að lögum, m.a. ætlað að breyta.

Þá er það eitt af markmiðum frumvarpsins að tryggja að upplýsingar um áhættu ábyrgðarmanns liggi fyrir þegar ábyrgðarsamningur er undirritaður. Þessi upplýsingagjöf kröfuhafa er forsenda samningsins og liggi upplýsingar ekki nægjanlega skýrt fyrir við samningsgerð getur það leitt til þess að samning megi ógilda á grundvelli reglna frumvarpsins og almennra reglna um brostnar forsendur í samningum, sbr. III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð o.s.frv. Finna má þess mörg dæmi úr íslensku viðskiptalífi að forsenda þess að samningar tókust var að þriðji aðili, einstaklingur, tókst á herðar ábyrgð á efndum. Mýmörg dæmi eru um tilvik þar sem samningsaðilum sjálfum hefur verið ljóst að aðalskuldari gæti aldrei efnt samning, en hann komist á þrátt fyrir það, án þess að ábyrgðarmanni væri þessi vitneskja tiltæk. Þetta hefur oft og tíðum leitt til þess að ábyrgðarmenn hafa misst heimili sín og þannig hefur verið kippt stoðum undan fjárhagslegu og félagslegu öryggi heilu fjölskyldnanna án þess að ábyrgðarmenn hafi nokkurn tíma haft af því hagsmuni að samningi væri komið á. Afleiðingarnar hafa oft verið mjög alvarlegar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild.

Róttækustu breytingarnar sem frumvarpið felur í sér er að finna í 4. gr. Þar er í fyrsta lagi kveðið á um að ábyrgðarsamningar skuli vera skriflegir. Það er formskilyrði fyrir gildi þeirra. Rökin fyrir þessari breytingu eru þau að sönnunaraðstaða um efni ábyrgðarsamnings væri annars mjög erfið. Í reynd eru flestir ábyrgðarsamningar skriflegir og því mun þetta ákvæði ekki hafa mikla praktíska breytingu í för með sér frá því sem nú er. Í 2. mgr. er kveðið á um að ábyrgðarsamningar þar sem ekki er kveðið skýrt á um höfuðstól kröfu á hendur aðalskuldara séu ógildir. Þá er þar kveðið á um að óheimilt sé að afhenda viðskiptabréf með ábyrgðarmönnum til að tryggja kröfu sem kann að stofnast síðar. Sú regla leiddi meðal annars til þess, yrði hún að lögum að afhending svokallaðra tryggingarvíxla, sem er séríslenskt fyrirbæri, yrði ekki lengur heimil.

Enn fremur er að finna róttækar breytingar í 9. gr. frumvarpsins en þar er efni ábyrgðarloforðs þrengt frá því sem nú er. Finna má mörg dæmi úr íslensku viðskiptalífi um að forsenda þess að samningar tókust hafi verið að þriðji aðili, einstaklingur, gekkst í ábyrgð á efndum. Dæmi eru að samningur hafi komist á þrátt fyrir að samningsaðilum hafi verið ljóst að aðalskuldari gæti aldrei efnt samninginn. Þetta hefur leitt til þess að ábyrgðarmenn hafa misst heimili sín og þannig hefur verið kippt stoðum undan fjárhagslegu og félagslegu öryggi heilu fjölskyldnanna, án þess að ábyrgðarmenn hafi nokkurn tíma haft af því hagsmuni að samningi væri komið á.

Því er í 9. gr. kveðið á um að ekki verði gerð aðför í fasteign ábyrgðarmanns, sem hann býr í, ef krafa á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs, auk þess sem þar er að finna ákvæði þess efnis að krafa um gjaldþrotaskipti verði ekki höfð uppi vegna kröfu sem á rót sína að rekja til ábyrgðarsamnings. 9. gr. eins og hún lítur út í þessu frumvarpi á sumpart fyrirmynd í reglu sem hefur verið lögfest víða í Bandaríkjunum, svokallaðri ,,Homestead exemption``-reglu. En í öllum samanburði við þá reglu er rétt að hafa í huga að bandaríska reglan á við um gjaldþrotaskipti og er því að miklum mun víðfeðmari, því hér er einungis ætlunin að setja almennar reglur um ábyrgðarmenn. Bandaríska reglan kveður á um að heimili skuldara renni ekki inn í gjaldþrotabú við skipti. Rökin fyrir henni eru þau að það þjóni ekki hagsmunum samfélagsins að reka einstaklinga og fjölskyldur á dyr í kjölfar gjaldþrots heldur auki það aðeins á vandann í stað þess að leysa hann. Þá er og sagt að samfélagsleg vandamál vegna sundraðra heimila vegi þyngra en hagsmunir einstakra kröfuhafa af því að geta leitað efnda kröfu með því að selja hús ofan af skuldaranum. Tilvist reglunnar leiðir sjálfkrafa af sér að ríkar kröfur eru gerðar til samningsaðilanna sjálfra um fagleg vinnubrögð við samningsgerð. Sú staðreynd að gagnaðili eigi fasteign undanþiggur ekki viðsemjanda hans frá því að sýna ýtrustu aðgæslu við samningsgerð. Reglan sem er almenn tekur jafnt til aðalskuldara og ábyrgðarmanna og gengur því mjög langt í því að vernda fjölskylduna, mun lengra en hér er gert, enda er þessu frumvarpi aðeins ætlað að gilda um ábyrgðarmenn. Þessa hugsun er ætlunin að færa inn í íslenskan rétt með lögfestingu frumvarpsins, þ.e. verði það að lögum.

Það er mat flutningsmanna að með framlagningu frumvarpsins sé á engan hátt vegið að eðlilegu samningsfrelsi í landinu enda er hér aðeins verið að standa gegn því að gert verði fjárnám í heimilum þeirra sem gangast í persónulega ábyrgð, án þess að þeir hafi persónulegan hag af lánveitingunni. Eftir sem áður geta einstaklingar í frjálsum samningum veðsett eigur sínar að vild. Flutningsmenn telja að samningsfrelsi sé og verði ein af grundvallarreglum samfélagsins þótt eðlilegar undantekningar geti verið á þeirri reglu sem finna má ýmis dæmi um í löggjöf. Í frumvarpinu eru skýrar reglur um hvernig standa skuli að samningsgerð þegar þriðji maður gengst í ábyrgð á efndum aðalskuldara, auk þess sem ábyrgðarkrafa er færð skör neðar, án þess að lagt sé bann við nokkru sem nú er heimilt.

Rökin fyrir þeim reglum sem hér er lagt til að verði lögfestar eru markmiðið um vernd einstaklingsins sökum þeirrar yfirburðastöðu sem lánveitendur hafa jafnan við samningsgerð. Það er einnig mat flutningsmanna að sú þróun sem átt hefur sér stað hér á landi á fjölda ábyrgðarmanna sé óviðunandi, eins og áðurnefnd skýrsla viðskiptaráðherra ber með sér. Enn fremur er í frumvarpinu gerð sú krafa til kröfuhafa að þeir sendi um hver áramót tilkynningu til ábyrgðarmanna með upplýsingum um ábyrgðir sem þeir hafa gengist í og hvort þær séu í vanskilum og þá hversu mikil þau vanskil eru. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að haldið sé vel utan um þetta því að eins og ábyrgðarmannakerfið hefur þróast hér á landi er óvíst að allir hafi nákvæmt yfirlit yfir það í hvaða ábyrgðum þeir eru. Má sem dæmi benda á Lánasjóð íslenskra námsmanna, en löngum hefur tíðkast að samstúdentar skrifi upp á lán hver fyrir annan án þess oft og tíðum að hafa næga yfirsýn yfir hvaða ábyrgðir þeir hafa skrifað upp á.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert almenna grein fyrir því frv. sem hér er mælt fyrir og ætla því að fara hér nokkrum orðum um einstakar greinar þess.

Í fyrsta lagi er frv. ætlað að gilda almennt um samninga þar sem þriðji aðili gengst í ábyrgð fyrir efndum þeirra, þ.e. þriðji aðili er ekki sjálfur aðalskuldari, heldur gengst hann í ábyrgð fyrir það að samningurinn verði efndur. Í 1. gr. frv. er einnig kveðið á um að reglurnar komi til með að taka yfir samninga þar sem þriðji maður afhendir veð til tryggingar efndum þessara samninga og því hefur hann sama rétt í slíkum tilvikum og ábyrgðarmenn almennt.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að ef þetta frv., yrði það að lögum, er lesið saman við núverandi víxilreglur þá yrði að túlka það sérstaklega. Sú hugsun sem hvílir að baki þessu frv. er fyrst og fremst sú að þær reglur eða þau viðmið sem hér eru sett fram taki fyrst og fremst til svokallaðra ábekinga, en ekki útgefenda víxla eða greiðanda, enda er það oftast þannig að þeir hafa haft einhvern hag af því að af lánveitingunni yrði.

Virðulegi forseti. Í öðru lagi vil ég nefna það sérstaklega að í þessu frv. er lögð mjög rík áhersla á það að sá sem ætlar að gangast í ábyrgð sé upplýstur nákvæmlega um hvernig staðan er hjá þeim sem hann ætlar að gangast í ábyrgð fyrir. Hann hefur skýlausa kröfu um að fá þá stöðu fram áður en hann undirritar ábyrgðarsamning. Og á sama hátt ef aðalskuldarinn eða sá sem fær afhent verðmæti sem tekin eru að láni neitar að upplýsa um stöðu sína þá hefur hann skýlausa kröfu til þess að fá að vita um þá neitun áður en hann skrifar undir viðkomandi samning. Og fái hann ekki þær upplýsingar áður en til þess kemur þá væri slík undirritun einskis virði.

Þá vil ég nefna sérstaklega 6. gr. Í henni er kveðið skýrt á um að kröfuhafi skuli tilkynna ábyrgðarmanni skriflega um vanefndir aðalskuldara. Ábyrgðarmaður verður ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða öðrum kostnaði sem fellur til eftir gjalddaga nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni var send tilkynning um vanefndir aðalskuldara. Þá skal kröfuhafi tilkynna ábyrgðarmanni ef veð eða aðrar tryggingaráðstafanir eru ekki lengur tiltækar. Jafnframt skal kröfuhafi tilkynna ábyrgðarmanni um lát aðalskuldara eða að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Því miður er það svo, virðulegi forseti, að í allt of mörgum tilvikum hefur það gerst að ábyrgðarmenn fá ekki upplýsingar um vanskilin fyrr en löngu síðar og hafa þegar af þeirri ástæðu þurft að takast á herðar greiðslur á háum fjárhæðum, bæði hvað varðar vexti, dráttarvexti og innheimtukostnað sem því fylgir. Hér er hins vegar kveðið á um að ábyrgðarmaður verði ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða öðrum kostnaði sem fellur til eftir gjalddaga, nema liðnar séu tvær vikur frá því ábyrgðarmanni var send tilkynning um vanefndir aðalskuldara. Með öðrum orðum verður ábyrgðin ekki virk fyrr en ábyrgðarmaðurinn er upplýstur um að krafan sé í vanskilum. Þetta leiðir til þess að ábyrgðarmaður getur þá annaðhvort gert upp kröfuna eða komið henni í skil, en þarf ekki að lúta því að frétta af því kannski ári eða tveimur árum síðar að tiltekin krafa sé komin í vanskil með öllum þeim kostnaði sem slíkum vanskilum fylgir.

Ég hef áður vitnað til 9. gr. Þar birtist sú hugsun að ekki verði gerð aðför eða fjárnám í fasteign þar sem ábyrgðarmaður býr eða fjölskylda hans ef krafa á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs.

Virðulegi forseti. Þetta held ég að sé gríðarlega mikilvægt ákvæði því að ef ástæða er til að verja nokkuð í tilvikum sem þessum þá er það fjölskyldan og heimili manna. Því miður hefur þróunin á Íslandi verið slík í allt of mörgum tilvikum að þegar upplýst hefur verið um tilvist tiltekinnar fasteignar sem hugsanlega er hægt að ganga að þá breytir oft og tíðum litlu fyrir þá aðila sem eru að semja og geta hugsanlega gengið að þessari fasteign hvort samningurinn eigi nokkurn tímann nokkurn möguleika á að verða efndur því ef menn vita að þeir geta gengið að fasteign þá er það látið gott heita.

[16:45]

Mýmörg dæmi eru þess að fjölskyldur hafa misst heimili sín vegna tilvika sem þessara og þetta er einfaldlega stór, svartur blettur á íslensku samfélagi og það fyrirkomulag sem hér hefur þróast í ábyrgðarveitingum þekkist hvergi á byggðu bóli. Þekkist hvergi í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við en hefur á einhvern hátt þróast án þess að nokkur hafi nokkurn tímann tekið um það alvarlega umræðu. Í raun og veru er sú hugsun að mínu viti alröng og hún skaðar viðskiptalíf, að það skuli vera talið eðlilegt að til að tryggja samning milli A og B, þá sé leitað á náðir C og hann beðinn að sjá til þess að gangi samningur A og B ekki eftir, þá skuli vera hægt að ganga að honum með einum eða öðrum hætti. Bara hugsunin í þessu er að mínu viti röng og sú þróun sem hér hefur átt sér stað sem er öll í þá veru, að menn telji það allt að einu að þetta sé eðlilegt fyrirkomulag, enda ber skýrsla viðskrh. sem ég vitnaði til í framsöguræðu minni þess merki að sú þróun sem hér hefur átt sér stað á sér enga hliðstæðu, hvergi nokkurs staðar í veröldinni.

Það er umhugsunarefni, virðulegi forseti, án þess þó að ástæða sé til að rugla því saman við þá umræðu sem hér fer fram, að það er eins og einhvers konar almannatryggingakerfi fjármagnseigenda hafi fengið að þróast á Íslandi, annars vegar í þessu formi, þ.e. ábyrgðarmannaformi sem hvergi annars staðar þekkist og svo hins vegar þetta öryggisnet sem hefur verið strengt gagnvart áhættunni af verðlagsþróun og öðru slíku, þ.e. í formi vísitölubindingar. Þannig að á Íslandi hafa þeir aðilar sem stunda þess konar viðskipti að einhverju leyti notið betra umhverfis af hálfu hins opinbera en almennt þekkist.

Ég held að umhugsunarefni sé af hverju þetta er svona. Ég tel að þessi skelfilega þróun sem hér hefur átt sér stað varðandi ábyrgðarmenn sé bara einn angi af þessu, því að mín skoðun er sú að viðskipti og annað slíkt þróist langsamlega best með almennum heilsteyptum reglum þar sem menn nálgast viðfangsefnið út frá ákveðnum jafnræðishugmyndum. Ég held að það sé algert grundvallaratriði til þess að viðskipti fái að þróast. Því ef menn eru ætíð að semja í skjóli einhverra reglna sem jafnvel hampa einum á kostnað annars, þá er það gegnumgangandi til þess fallið að veikja þær kröfur sem aðilar gera til sjálfra sín í slíkum viðskiptum. Hins vegar getur það oft og tíðum verið þannig að aðstaða manna sé misjöfn. Og þá ber að rétta þá stöðu, en þessi staða er að mínu viti mjög verðugt umhugsunarefni hvernig ríkisvaldið hefur oft og tíðum gengið fram fyrir skjöldu í málefnum þeirra sem meira mega sín og tek ég þessi tvö dæmi máli mínu til stuðnings.

Í 10. og 11. gr. er aðeins kveðið á um það annars vegar að komi til þess að tryggingafélög eða aðrir slíkir greiði vegna greiðslufalls aðalskuldara, þá njóti ábyrgðarmaður góðs af því, enda ofur eðlilegt.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, eftir að hafa farið almennum orðum um frv. sem við ræðum, aðeins nefna þær umsagnir sem hafa borist um frv. því eins og kom fram í máli mínu í upphafi er þetta í fjórða sinn sem þetta frv. er lagt fram.

Í umsögn frá Alþýðusambandinu segir m.a., með leyfi forseta:

,,Sú neytendavernd sem felst í ótvíræðri upplýsinga- og tilkynningaskyldu kröfuhafa horfir mjög til bóta og ASÍ hvetur til þess að þetta frv. verði samþykkt.``

Neytendasamtökin lýsa yfir miklum stuðningi við frv. og hafa m.a. sent þingmönnum áskorun þess efnis að samþykkja það.

Í umsögn Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands er tekið mjög undir það að frv. verði að lögum og vakin sérstök athygli á því hversu mikilvægt það sé að heimili einstaklinga séu undanþegin aðför, því oftast er það þannig að það tjón sem samfélagið verður fyrir vegna þess að fjölskyldur og heimili manna sundrast er miklum mun meira en hagsmunir ábyrgðarmanna af því að fá greiðslur á kröfum sínum, sem þeir þó báru ábyrgð á stofnun í upphafi.

Fjármálaeftirlitið tekur undir þau meginsjónarmið sem liggja til grundvallar frv. og Vinnumálasambandið sömuleiðis.

Segja má að í þeim umsögnum sem hafa borist eftir að frv. var lagt fram sé nánast undantekningarlaust tekið undir nauðsyn þess að lögfesta reglur eins og þessar. Ég nefndi það ekki áðan, virðulegi forseti, en bæði Seðlabanki Íslands og Þjóðhagsstofnun hafa einnig tekið undir nauðsyn þess að lögfesta þessar reglur og hafa hvatt til þess að þær verði lögfestar, en það eru einvörðungu viðskiptabankarnir sem hafa mælt á móti þessu. Það eru einu aðilarnir sem hafa mælt því í mót að reglur líkt og þessar verði lögfestar og hafa mælt hart gegn því að svo verði, sem í sjálfu sér þarf ekki að koma neinum á óvart.

Ég vil segja það í lok framsöguræðu minnar að núverandi ástand á Íslandi hvað þessi málefni varðar er í miklu skötulíki og að mínu viti svartur blettur á íslensku samfélagi. Sú þróun sem hér hefur átt sér stað hefur verið í skjóli ríkisvaldsins og kannski þeirra viðhorfa sem hafa ríkt í íslensku viðskiptalífi meira og minna alla þessa öld, í skjóli þess að sífellt er verið að vernda suma á kostnað annarra. Og jafnvel að einhverju leyti hugsanlega áður fyrr í skjóli þeirra helmingaskipta sem áttu sér stað í íslensku viðskiptalífi langt fram eftir öldinni.

Ég held, virðulegi forseti, að Alþingi eigi núna að taka á sig rögg og samþykkja reglur af þessum toga vegna þess m.a. að fyrir þremur árum, ef ég man rétt, tóku sig saman sennilega tvö ráðuneyti, viðskiptabankarnir og Neytendasamtökin og gerðu tilraun til þess að breyta frá þeim venjum og þeim framgangsmáta sem þessi mál höfðu verið í í viðskiptabönkunum, en það er samdóma álit þeirra sem ég hef talað við að það hafi ekki tekist nema að litlu leyti, að sáralitlu leyti hafi tekist að breyta því fyrirkomulagi sem hér hefur ríkt um allt of langt skeið. Við höfum einnig verið að lifa ákveðna uppgangstíma núna undanfarin ár. Ég óttast að í því bjartsýniskasti sem samfélagið hefur kannski verið í undanfarna mánuði og kannski um árabil, að þegar því linni sé mjög víða að finna einstaklinga sem í einhverjum slíkum bjartsýnisköstum hafa tekist á hendur ábyrgð.

Ég held að mjög mikilvægt sé að Alþingi taki á sig rögg, samþykki reglur af þessum toga og sýni að það geti sett sínar reglur þrátt fyrir að öflugir aðilar í samfélaginu séu því andvígir.